Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á þessu síðasta. Ég er á því að fyrsta útboðið hafi gengið alveg afspyrnuvel. Það eru reyndar flestir á þeirri skoðun. En ég ber virðingu fyrir því að hv. þingmaður er enn að tala um það. Þegar við fórum í þennan hluta hafði hv. þingmaður nefnilega meiri áhyggjur af því sem hafði gerst í fyrsta hlutanum og var ósáttur við það. Ég les einna helst út úr þessu að vilji þingmannsins standi hreinlega ekki til þess að einkavæða bankana, að það sé ekki sérstök áhersla hans. Ég get ekki séð að þessir útreikningar sem hv. þingmaður hefur haldið fram, að við höfum með einhverjum hætti verið að tapa fjármunum, gangi hreinlega upp.

En þá að fyrri spurningunni. Stuðla að fjölbreyttu heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma — við eigum í dag 15.000 hluthafa í þessum banka, þetta er eitt fjölmennasta almenningshlutafélag á landinu. Þarna eru líka allir helstu lífeyrissjóðirnir og stórir fjárfestar, einhverjir erlendir og innlendir. Þannig að: Já, ég get ekki betur séð en að það markmið hafi nákvæmlega náðst. Og það er líka mikilvægt að muna þær reglur sem við höfum sett: Þegar viðkomandi er orðinn virkur hluthafi og á orðið 10% þarf hann að uppfylla önnur skilyrði og enn meiri.