Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[02:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir að þessi umræða hefur skipt máli og þó að klukkan sé núna langt gengin þrjú og einhverjir ræðumenn eftir þá sýnir þetta að þingið getur verið virkt í umræðu og getur átt málefnalega rökræðu í þingsal. Auðvitað hefur komið í ljós að stjórnarþingmenn engjast fram og til baka og það er erfitt að svara til um það og lesa í spilin t.d. hvað varðar Framsóknarflokkinn, hvaða mál hafa verið rædd innan ráðherranefndar um efnahagsmál. Það eru mjög óljós svör og ég hefði gjarnan viljað fá skýrari mynd hvað þann þátt varðar, svo að dæmi séu nefnd. Þessi vika sýnist mér að muni fara mjög mikið í það að við ræðum nákvæmlega þetta mál til að reyna að upplýsa sem mest. Þessi dagur hefur gagnast mjög vel í það og ég vil hrósa þingmönnum, bæði stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu, fyrir að hafa nálgast málið af ákveðinni yfirvegun og líka með það að markmiði að reyna að fá fram upplýsingar. Það er gríðarlega mikilvægt í stóru myndinni að byggja upp traust eins og við öll vitum.