152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Áfram krefjumst við í stjórnarandstöðunni þess að fá setta á stofn rannsóknarnefnd Alþingis vegna Íslandsbankasölu ríkisstjórnarinnar. Umræða af hálfu stjórnarliða er á nokkrum villigötum og því tel ég mikilvægt að leiðrétta nokkra hluti sem hafa verið á floti í umræðunni.

Í fyrsta lagi er óumdeilt að rannsóknarnefnd Alþingis hefur mun ríkari heimildir til gagnaöflunar en Ríkisendurskoðun. Ef aðilar neita að mæta í skýrslutöku er hægt að óska úrskurðar dóms um að flytja eigi viðkomandi í skýrslutöku. Þessar heimildir hefur Ríkisendurskoðun ekki.

Í öðru lagi er afar mikilvægt ákvæði í lögum um rannsóknarnefndir Alþingis sem Ríkisendurskoðun hefur ekki, þ.e. að sá sem mögulega hefur komið að útboðinu sjálfu í einhverri mynd, og þá eftir atvikum tekið þátt í einhverju sem flokkast mætti sem lögbrot, getur mætt fyrir nefndina og óskað eftir að verða leystur undan saksókn gegn upplýsingagjöf um lögbrotið. Þetta var lykilatriði í rannsókn í kjölfar bankahrunsins og auðveldaði mjög rannsókn þessara flóknu mála. Þessa heimild hefur Ríkisendurskoðun ekki.

Þá fjallar rannsóknarnefnd Alþingis einnig um siðferðisleg álitaefni sem Ríkisendurskoðun fæst ekki við.

Veita þarf athygli að stjórnarflokkarnir eru einfaldlega að tefja málið með því að neita að setja á stofn rannsóknarnefnd Alþingis. Bankasalan er afmarkað efni í umfangi og tíma og ekki nærri því eins flókið og önnur áður rannsökuð efni. Með því að tefja er meiri hlutinn einfaldlega að þvælast fyrir rannsókninni. Það er ekkert sem Ríkisendurskoðun rannsakar sem ekki er hægt að fela rannsóknarnefnd Alþingis að klára. Rannsókn embættis Ríkisendurskoðunar getur með öðrum orðum þvælst fyrir árangri rannsóknarnefndar Alþingis. Mögulega, herra forseti, er tafaleikurinn einmitt markmið ríkisstjórnarinnar en áfram munum við í stjórnarandstöðunni berjast fyrir því að alvörurannsókn fari hér fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)