152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ríkisstjórnin vill að kastljósinu verði beint að þeim sem framkvæmdu söluna á bréfum í Íslandsbanka en ekki að þeim sem tóku ákvarðanir. Þetta speglar auðvitað hættulega sýn á ábyrgð, að ætla að forðast rannsóknarnefnd sem getur raunverulega skoðað þá þætti sem máli skipta og vona að það dugi til að lægja öldurnar að leggja Bankasýsluna niður. En almenningur sér stóru myndina. 83% þjóðarinnar eru óánægð.

Valinn hópur fólks keypti bréf í bankanum með afslætti. Á nokkrum klukkutímum var seldur hlutur í bankanum fyrir um 50 milljarða. Engin skoðun virðist hafa verið á hæfi þeirra sem fengu að kaupa þrátt fyrir að talað hafi verið um að fá fagfjárfesta til lengri tíma. Einhverjir seldu strax eftir kaupin, sumir kaupendur keyptu fyrir svo lágar upphæðir að margt fólk hefði getað tekið þátt ef það hefði bara staðið til boða og sumir þeirra sem seldu keyptu sjálfir.

Jú, það þarf að rannsaka framkvæmdina, hvernig söluaðilar útboðsins komu fram og hvaða reglur þeim voru settar. En það er ekki hægt að slíta ábyrgðarkeðjuna, eins og ríkisstjórnin vill gera. Ráðherranefnd um efnahagsmál tók ákvarðanir um aðferðafræði sölunnar. Hér þarf þess vegna að rannsaka pólitískar ákvarðanir: Hvers vegna voru ekki gerðar kröfur um lágmarksupphæðir kaupenda? Var rætt um sölubann? Hvaða kröfur voru gerðar til fagfjárfesta? Á hvaða forsendum samþykkti forsætisráðherra söluaðferðina sem fjármálaráðherrann hennar lagði til? Hver er ábyrgð ráðherra ríkisstjórnarinnar? Allir sem hafa reynslu af rannsóknum vita að lykilpunkturinn þar er að spyrja réttu spurninganna. Það getur rannsóknarnefnd gert. Til þess er hún. Hún getur rannsakað forsendur, hún getur rannsakað samskipti innan ríkisstjórnarinnar, ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Og þetta er auðvitað ástæða þess að allt kapp er lagt á að þessi leið verði ekki farin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)