152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Nú hafa Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn slegið skjaldborg um Bjarna Benediktsson, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Það mun ekki efla traust almennings til stjórnmálamanna eða þessa vinnustaðar og það er innihaldslaust hjal að halda því fram að tæma þurfi önnur rannsóknarúrræði áður en rannsóknarnefnd er sett á laggirnar. Það er ákvörðun Alþingis að gera það og það er ekkert í lögum sem segir að hitt þurfi að tæma. Það liggur fyrir hver úrræðin eru, hver úrræði ríkisendurskoðanda eru og hver úrræði rannsóknarnefnda eru. Það er skrifað inn í íslenska löggjöf.

Svo er eitt, hæstv. forseti, sem vert er að hafa í huga. Ég ætla að vitna í 13. gr. þingskapalaga. Ég ráðlegg hv. þingmönnum að lesa þau a.m.k. einu sinni á dag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin skal einnig hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Komi beiðni um slíka athugun frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna skal hún fara fram. Um athugun sína getur nefndin gefið þinginu skýrslu.“

Þetta úrræði hefur ekki verið tæmt og það er eins gott að þingmenn átti sig á því hvert eftirlitshlutverk hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er. Við munum fá upplýsingar um afmörkun rannsóknar Ríkisendurskoðanda og í ljósi þeirrar afmörkunar mun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nota þau lagalegu úrræði sem hún hefur til að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.