152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:07]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Við lok síðasta löggjafarþings voru merkilegar breytingar á barnaverndarlögum samþykktar hér á Alþingi. Ákveðið var að leggja niður pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir og í staðinn að byggt yrði upp nýtt skipulag barnaverndar innan sveitarfélaga með stærri barnaverndarumdæmum. Í stað barnaverndarnefnda var ákveðið að sveitarfélög skyldu starfrækja barnaverndarþjónustu. Jafnframt myndu sveitarfélög í samstarfi sín á milli koma á fót svonefndum umdæmisráðum barnaverndar sem úrskurða um tilteknar íþyngjandi ráðstafanir í barnavernd. Lágmarksstærð umdæma að baki hverju umdæmisráði var ákveðin 6.000 íbúar. Sami íbúafjöldi skyldi vera að baki hverri barnaverndarþjónustu en þó þannig að heimilt yrði að veita undanþágu frá lágmarksíbúafjölda ef sveitarfélög sýndu fram á lágmarksfagþekkingu innan sinnar barnaverndarþjónustu. Markmiðið með breytingunum var fyrst og fremst að styrkja fagþekkingu í barnavernd. Mikil samstaða var þá og er enn um málið. Það var undirbúið í samráðshópi með fulltrúum sveitarfélaga og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi. Lögin voru samþykkt í júní á síðasta ári. Þar kom fram að niðurlagning barnaverndarnefnda kæmi til framkvæmda að loknum sveitarstjórnarkosningum á þessu ári, nánar tiltekið 28. maí 2022.

Virðulegi forseti. Seinni hluta febrúar á þessu ári átti ráðuneyti mitt og Samband íslenskra sveitarfélaga samtöl um innleiðingu breytinganna og að þær hefðu verið tímafrekari og stærri heldur en gert hafði verið ráð fyrir. Hinn 25. febrúar barst formlegt erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem þess var eindregið óskað að gildistöku ákvæða er varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar yrði frestað um skamman tíma. Í bréfinu er áréttað það sem áður kom fram um að almenn sátt ríkir um breytingarnar og þær taldar til þess fallnar að styrkja barnavernd hjá sveitarfélögum. Hins vegar væri um að ræða mjög umfangsmiklar og flóknar breytingar sem af ýmsum ástæðum hefði gengið hægar en vonir stóðu til að innleiða og undirbúa.

Í bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga er jafnframt lögð áhersla á mikilvægi þess að stjórnsýsla barnaverndar gangi snurðulaust fyrir sig og ég tek undir það. Fátt er mikilvægara en að börn hér á landi njóti öryggis og verndar. Markmið barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Stórar og nauðsynlegar breytingar á skipulagi barnaverndar mega ekki með nokkrum hætti þvælast fyrir þessum markmiðum.

Ég mæli því fyrir frumvarpi um að fresta niðurlagningu barnaverndarnefnda til 1. janúar 2023 og að nýtt fyrirkomulag barnaverndar hjá sveitarfélögum með barnaverndarþjónustum og umdæmissvæðum barnaverndar taki þá til starfa. Frumvarpið hefur það að markmiði að engin röskun verði á starfsemi barnaverndarnefnda fram til 1. janúar 2023. Er því lagt til að almennt haldi barnaverndarnefndir sem starfa nú á grundvelli gildandi barnaverndarlaga umboði sínu og starfi í óbreyttri mynd til 1. janúar 2023. Þó verður gert ráð fyrir að heimilt verði að kjósa nýja barnaverndarnefnd eftir komandi sveitarstjórnarkosningar sem starfi tímabundið til næstu áramóta. Sömu reglur gilda um þá kosningu nýrrar barnaverndarnefndar og hingað til hafa gilt.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að þó að þetta frumvarp verði samþykkt haldi sveitarfélög áfram með virkum hætti að undirbúa framkvæmd þessara breytinga. Til að styðja enn betur við þá innleiðingu hef ég skipað sérstakan stýrihóp um innleiðingu breytinganna á barnaverndarlögum með fulltrúum frá mennta- og barnamálaráðuneyti, sveitarfélögunum og Barna- og fjölskyldustofu. Gert er ráð fyrir því að öll sveitarfélög verði búin að ganga frá skipulagi sem tengist stofnun barnaverndarþjónustu og umdæmisráða barnaverndar fyrir 1. október 2022. Gefst þá ráðrúm til að ljúka við mönnun og aðlaga verkferla og starfsemi nýju eininganna áður en þær taka svo til starfa 1. janúar 2023.

Virðulegi forseti. Ég hef mikla trú á því að nýtt skipulag barnaverndar innan sveitarfélaga með stærri barnaverndarumdæmum verði mikið heillaspor fyrir barnaverndarstarf á Íslandi. Samhliða innleiðingu þessara breytinga verður áfram unnið að síðari hluta endurskoðunar barnaverndarlaga og er gert ráð fyrir þeim á næsta haustþingi.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.