152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:16]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég segi er það í höndum Alþingis hvernig það vill afgreiða þessi mál. Sveitarfélögin óskuðu eftir lengri fresti af hálfu ráðuneytisins í lok febrúar til að geta gefið sér betri tíma til innleiðingarinnar. Ég held að það væri mjög mikilvægt að geta gefið sveitarfélögunum það svar fyrir sveitarstjórnarkosningar að þessu hefði verið frestað. Ég myndi vilja geta gefið sveitarfélögunum það svar að þessu hefði verið frestað fyrir sveitarstjórnarkosningar vegna þess að það er ábyrgðarhlutur að gera það ekki eins fljótt og mögulegt er. Ég hefði raunar kosið að við hefðum getað gefið svar fyrir páska en erindið barst ekki fyrr en í lok febrúar, kom síðan hingað inn. Þetta er raunar eina málið sem ég legg áherslu á að verði klárað af þeim málum sem ég hef lagt fram á þinginu enda er málið, þrátt fyrir að mikilvægt sé að fara vel yfir það og gaumgæfilega, mjög einfalt. Það snýr að því að fresta gildistökunni á öllum þeim breytingum sem við vorum búin að ákveða að gera og vorum sammála um hér í þingsal að gera, fresta þeim frá 25. maí til 1. janúar á næsta ári. Aðrar eru breytingarnar ekki.