152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:18]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að það sé verið að leggja niður pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir, þótt fyrr hefði verið, frábært að það sé verið að gera það. Mér þykir áhugavert að skoða hverjar ástæðurnar eru fyrir því að börnin bíða og pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða enn þá við lýði. Það er þá m.a. breytt skipan ráðuneyta, eins og segir hér, og tilfærsla málaflokka. Þá hugsar maður: Bíddu, hver er forgangurinn? Var ekki í forgangi að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir — ég sem barnaverndarstarfsmaður, fyrir utan að vera stundum á þingi sem varaþingmaður, spyr mig: Hvers vegna var ekki í forgangi að þessar nýju nefndir með þessu nýja fyrirkomulagi væru settar á fót og því fylgt eftir sem lagt var upp með? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ástæðan fyrir því sé skortur á fjármagni fyrir þennan málaflokk innan sveitarfélaga, að þess vegna sé ekki búið að útfæra það hvernig þessar nefndir verða og hverjir sitja í þeim.