152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð þess þingmanns sem var hér á undan mér, hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar, varðandi mikilvægi þess að vanda sig við lagasetningu. Það er gríðarlega mikilvægt af því að við erum hér að fjalla um réttarúrræði ýmiss konar, ýmiss konar úrræði fyrir almenning í landinu. Við erum að tala um stundum mjög íþyngjandi nærþjónustu, veitandi nærþjónustu, ýmiss konar hluti sem geta haft varanleg áhrif á fólk og þá verðum við, og ég hef örugglega sagt þetta vikulega hér frá því að ég settist á þing fyrir rúmum fjórum árum, að tryggja það að löggjöfin séu unnin með þeim hætti að fullnægjandi sé. Því miður gerðist það allt of oft í tíð síðustu ríkisstjórnar, og þar er hæstv. barnamálaráðherra svo sannarlega ekki saklaus af, að mætt var inn í þing með frumvörp allt of seint. Við töluðum um þetta óteljandi sinnum. Ég var alltaf að rífast við hæstv. ráðherra um nákvæmlega þetta. Hvers vegna kemur hæstv. ráðherra æ ofan í æ með mjög flókin frumvörp og ætlast til þess að Alþingi Íslendinga, fastanefndir, þingmenn sem hafa alls konar bakgrunn, setji sig inn í málin, allir umsagnaraðilar setji sig með hraði inn í málin og afgreiði þau með hraði og við þurfum svo að taka til hér næstu misseri á eftir?

Þetta er fullkomlega óboðlegt. Við erum búin að vera í þessu endalaust. Við vorum í þessu með fæðingarorlofslögin, af því að ég minntist á þau, mjög nauðsynleg breyting. Og þegar maður stendur hér í pontu og bendir á ágalla á málsmeðferð af hálfu ríkisstjórnarinnar í hinum og þessum málum er alltaf komið hérna upp og maður er vændur um það að vera á móti góðum málum. Ég vil bara taka það fram að ég er ekki á móti því að við pössum upp á að barnavernd geti starfað eins og hún þarf að starfa, bara svona áður en hæstv. ráðherra fer að væna mig um slíkt. Ég er aðeins að biðja um lágmarksfagmennsku í vinnubrögðum hérna. Við erum endalaust að taka til eftir ríkisstjórnina, alveg endalaust. Þetta er ekki boðlegt. Þvílíkt fúsk. Svo er verið að segja að þingmenn eigi bara að bera sjálfir ábyrgð á því þegar þeir fá kannski einn dagspart án sérfræðiráðgjafar til að fara yfir málin sem koma hérna í löngum bunum.

Þetta er ótrúlega sérstakt ástand og allt í einu núna í þessu máli velti ég fyrir mér hvers vegna það kemur svona seint. Þetta kom hérna í vikunni fyrir páskahlé og komst ekki á dagskrá og við erum að ræða þetta núna, dagsetningarmál. En það er svo rosalega mikið í þessu dagsetningarmáli. Við erum vön því í dagsetningarmálum að það sé bara ein lína, að það sé bara verið að fresta ákvörðun um gildistöku. En það sem gerðist hjá mér í morgun þegar ég horfði á þetta frumvarp var að ég sá að þetta er heil blaðsíða. Þetta er dagsetningarmál. Ég er löglærð. Ég get reynt að stauta mig í gegnum þetta án þess að ég missi svefn yfir því. En þetta er ekkert einfalt dagsetningarmál. Það er það ekki. Það er fullt af öðru stöffi í þessu. Það þarf að vanda sig og við þurfum að klára þetta fyrir páska, fyrir kosningar helst, a.m.k. þarf það að vera frágengið áður en að sveitarstjórnir eru skipaðar sem er tveimur vikum eftir kosningar, í fyrsta lagi.

Það eru náttúrlega óteljandi tilvísanir í lagaákvæði hérna. Þú þarft að hafa lágmarksþekkingu á málaflokknum til að geta stautað þig í gegnum þetta og vitað eitthvað um hvað þetta er og um hvað er verið að fjalla hérna. Þetta kom ekki fram svo vel væri í ræðu flutningsmanns, hæstv. ráðherra, sem endar svo á því að tilkynna okkur að hann hafi skipað stýrihóp við innleiðingu á öllum þeim breytingum sem áttu sér stað í lok síðasta kjörtímabils, síðastliðið vor, rétt áður en ríkisstjórnin sendi Alþingi í sumarfrí í óteljandi vikur og mánuði fyrir kosningar. Við þá lagasetningu blasti auðvitað við að það þyrfti að vanda mjög alla úrvinnslu og innleiðingar á því sem við vorum að gera þá. Þáverandi hæstv. félags- og barnamálaráðherra og núverandi hæstv. menningar- og barnamálaráðherra (Gripið fram í: Mennta.) — mennta- og barnamálaráðherra hefur farið með málaflokkinn allar götur síðan. Ég spurði þeirrar sáraeinföldu spurningar: Hvenær var starfshópurinn skipaður? Var hann skipaður strax eftir samþykkt laga? Af því að þegar ég skoða alla stýrihópa á vef Stjórnarráðsins er þessi stýrihópur ekki þar. Þegar ég hef spurst fyrir um hverjir eiga sæti í stýrihópnum þá fæ ég engin svör. Ég var ekki að biðja um að fá að vita klukkan hvað stýrihópur var skipaður. Ég vil vita hversu langt stýrihópurinn er kominn með innleiðingu þessara miklu breytinga. Ég er ekki að tala um samtal milli aðila, af því að hæstv. ráðherra talaði um að hann hefði skipað stýrihóp, hann væri búinn að skipa stýrihóp, ekki að hann væri að fara að skipa stýrihóp. Ég óska eftir að fá heiðarleg svör hérna. Ef hæstv. ráðherra er að fara að skipa stýrihóp þá vil ég vita það. Þá vil ég að hann segi: Ég er að fara að skipa stýrihóp. Af því að það sjást hvergi merki um þennan stýrihóp. Við erum með langan lista af stýrihópum á vef Stjórnarráðsins.

Af hverju er ég að tala um þetta? Af því að það skiptir máli að vita hvort það er almenn meðvitund hjá ríkisstjórninni um innleiðingu laga sem varða börn og barnafjölskyldur hringinn í kringum landið, hvort það sé almenn meðvitund um mikilvægi þess að vanda til verka við innleiðingu eða hvort það eigi að gera þetta bara einhvern veginn. Þetta eru ofboðslega viðkvæmir málaflokkar, alveg ofsalega. Ég hef starfað í þessum málaflokkum og ég veit hvað þetta getur skipt miklu máli. Þetta getur skipt máli fyrir líf og heilsu alls fólks á Íslandi. Þetta er ekki bara einhver dagsetning.

Af því að ég er hingað komin þá minnist ég á annan stýrihóp sem samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við fæðingarorlofslögin átti að skila af sér niðurstöðum eigi síðar en 1. mars 2021. Það er rúmlega ár síðan að stýrihópur sem hæstv. barnamálaráðherra var falið að skipa í desember 2020 við breytingar á fæðingarorlofslögunum til verndar börnum og foreldri sem hefur sætt ofbeldi af hálfu hins foreldrisins átti að skila niðurstöðum. Sá stýrihópur er hvergi sjáanlegur. Þetta var stýrihópur sem átti að skila af sér niðurstöðum eigi síðar en 1. mars 2021 samkvæmt lögum. Það er nefnilega þannig að við afgreiðslu þessa máls þá stóð sú sem hér er grenjandi í hliðarsölum til að berjast fyrir þær fjölskyldur sem fá bara sex mánuði í fæðingarorlof vegna þess að hitt foreldrið neitar að afsala sér réttinum þrátt fyrir að sæta nálgunarbanni gagnvart foreldrinu. Í alvöru, ég stóð hérna grenjandi í hliðarsölum að reyna að fá stjórnarliða með í að tryggja réttindi þeirra sem verða fyrir svona ofbeldi. Það var hummað út af borðinu með því að setja bráðabirgðaákvæði inn um að það yrði skipaður stýrihópur til að rannsaka umfang og hversu flókið þetta væri mögulega af því að það mátti alls ekki samþykkja tillögu frá stjórnarandstæðingi, þótt ég hafi mikið vit á þessum málaflokki af því að ég starfaði í honum. Ég talaði við fjöldann allan af ráðherrum, stjórnarliðum og var að reyna að fá þau til að skilja um hvað málið snerist. Mánuðirnir skiptast til jafns milli foreldra og það foreldri sem þarf að þola ofbeldi sem er svo gróft að það næst fram nálgunarbann, sem er mjög sjaldan beitt gagnvart hinu foreldrinu, barn þess foreldris fær styttra fæðingarorlof af því að það átti að skipa starfshóp, stýrihóp, starfshóp sem átti að skila af sér 1. mars 2021. Það hefur ekkert verið gert í þessu og Fæðingarorlofssjóður veit ekkert hvernig hann á að vinna þetta og sýslumenn hringinn í kringum landið vita ekkert hvernig þeir eiga að vinna þetta. Og hverjir tapa á því? Lítil börn og foreldrar sem verða fyrir ofbeldi.

Þetta er ekkert lítið dagsetningarmál. Við þurfum að vanda okkur við lagasetningu og við þurfum í alvöru að þora að hlusta líka á það sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa stundum. Það er einstaka sinnum sem er hérna fólk sem hefur eitthvert vit á hlutunum, ekki alltaf, en það er einstaka sinnum að það er allt í lagi að taka við góðum hugmyndum. En það er algjört lágmark þegar við erum að setja lög að við reynum að vanda okkur eins og við getum svo við séum ekki endalaust að taka til eftir einhver mistök.