152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög þarfa ræðu. Það er greinilegt að hv. þingmaður hefur mjög góða innsýn inn í þessi mál og það er einmitt mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður bendir á, að nýta þá reynslu og þá þekkingu sem er hjá þingmönnum hér inni á ýmsum málum til að gera þau betri í þeirri þinglegu meðferð sem þau fá. Ég veit að breytingar vegna þessa máls voru lagðar fram á vorþingi fyrir ári síðan og ég veit líka að hv. þingmaður var þá í velferðarnefnd, sem málið fór til. Mig langar því að spyrja hv. þingmann fyrst hvort það var einhvern tímann rætt í annaðhvort nefndinni eða af gestum, eins og fulltrúum frá samtökum sveitarfélaga, að tíminn til að innleiða þetta væri of stuttur og hvort við hreinlega hlustuðum þá ekki á þær athugasemdir eða hvort menn áttuðu sig ekki á því hvað þetta væri stórt mál.