152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Ég vil koma hér með leiðréttingu. Í frumvarpinu var talað um að lögin skyldu taka gildi 1. janúar 2022 að undanskildu því ákvæði sem núna er verið að fresta aftur, þ.e. varðandi skipan barnaverndarnefnda og þessi umdæmisráð, þau áttu að taka gildi eftir kosningar í vor. Bara svo því sé haldið til haga.

Varðandi hins vegar þessar miklu breytingar sem voru gerðar þá kom frumvarpið inn 14. apríl á þessum þingvetri og þá sést augljóslega að vinnan við það var auðvitað alls ekki fullnægjandi. Ég get bara fullyrt það hér. Ég held að það sæki á ráðherra, marga hverja, einhver gleymska þegar þeir ganga hérna út úr þinghúsinu af því að það virðist vera sem þeir gleymi því hvernig vinna fer fram í fastanefndum Alþingis sem funda tvisvar í viku með stabba af málum. Það er eins og þeir haldi að það sé bara eitt mál á dagskrá hverju sinni og að allir þingmenn sem sitja og eiga að vinna þetta mál með öllum sérfræðingum og stofnunum utan húss séu þá bara í því næstu tvo mánuði. Það væri auðvitað best ef það væri hægt en það er ekki raunin. Við erum að funda tvisvar í viku að jafnaði með öll þau mál sem öllum ráðherrum sem heyra undir viðkomandi nefnd detta í hug. En það var auðvitað ánægjulegt að heyra áðan hæstv. barnamálaráðherra lýsa því yfir að þetta mál sem við erum að fjalla um í dag væri í rauninni eina málið sem hann leggur áherslu á að verði klárað á þessum þingvetri. (Gripið fram í.) — Hann sagði það. Það er bara fínt. (Forseti hringir.) Mér finnst það jákvætt. Mér finnst bara mjög jákvætt að það sé þannig.