152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[15:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi þessa skipan mála og hvort það sé besta útfærslan að hafa 6.000 manna samlög eða hvað maður kallar það og umdæmisráð þar yfir þá getum við náttúrlega útfært þetta með ýmsum hætti en ég held að það sé margt sem mæli með því að vera með alla vega einhvers konar smærri einingar sem geta þá verið í nánara sambandi við nærsamfélagið án þess þó að þær verði of smáar af því að það er náttúrlega það sem við höfum brennt okkur varðandi smæstu pólitískt skipuðu barnaverndarnefndirnar. Þær standa kannski viðfangsefninu of nærri. Hæfi fólks til að taka erfiðar ákvarðanir verður því minna í þessum málum, því nær sem það stendur þeim. Þess vegna er einhver lágmarksstærð eðlileg en það er mikilvægt að hafa einingar sem gegna samræmingarhlutverki þannig að gæði þjónustunnar séu þau sömu um allt land. Það er auðvitað annað sem hefur ekki verið í lagi á undanförnum árum. Varðandi þinglega meðferð málsins þá fer þetta náttúrlega í gegnum þessa þverpólitísku nefnd sem var að störfum mestallt síðasta kjörtímabil og hluti af breytingum kemur frá þeirri nefnd. Það var margt ágætt í þeirri nefnd en endaspretturinn var fullhraður. Nefndin skilaði af sér kannski fullseint og það var mikil pólitísk kappsmál hjá ráðherranum að klára einhverjar afurðir hér í þingsal fyrir kosningar af því að Framsóknarflokkurinn þurfti að lyfta sér á þessum málum í kosningabaráttunni. Það er kannski ekki stærsti skaði í heimi að leyfa pólitísku barnaverndarnefndunum að lifa nokkra mánuði í viðbót ef við náum að koma þeim úr sögunni um næstu áramót. En það hefði verið ágætt að vinna þetta það vel að við hefðum bara getað klárað þetta almennilega. (Forseti hringir.) En, eins og ég segi, þarna flæktist kosningabaráttan kannski fyrir fólki.