152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[15:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú verð ég að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki rakið öll álitaefni sem uppi voru í þingmannanefndinni. Ég sat sjálfur ekki í henni, en fylgdist með störfum hennar. Mögulega hefur ekki verið nægileg umræða úti í samfélaginu um það sem hún var að taka sér fyrir hendur. Ég held að það hafi nú einhverjir fundir verið haldnir og hún var náttúrlega mikið í því að kalla hagsmunaaðila á sinn fund til að fara yfir tiltekin álitaefni þannig að það var ýmislegt ágætlega unnið innan nefndarinnar, tel ég. En síðan er alltaf spurning hvort fólk hafi kannski færst of mikið í fang og hvort það hafi síðan á endanum verið reynt að ná of miklu í gegnum þingið á of stuttum tíma á síðustu metrunum. En þetta með fámennið og skort á sérfræðiþekkingu víða um landið í smærri sveitarfélögum er eitthvað sem var rætt í ýmsum málum á síðasta kjörtímabili. Það var t.d. heilmikið rætt um mögulegan lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum almennt vegna þess að það er ekki bara barnaverndarþjónustan sem líður fyrir fámennið og kallar á einhvers konar liðsinni miðstjórnarvaldsins, eins og hv. þingmaður nefnir það. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að gera miklu betur í á mjög mörgum sviðum. Þessi verkaskipting ríkis og sveitarfélaga á ekki að vera verkefnunum svona mikill fjötur um fót. Það á ekki að standa barnavernd í landinu fyrir þrifum að sveitarfélögin sinni þeim en ríkið hafi ekki aðkomu að því eins og var í rauninni áður. Það er í rauninni vandinn sem þessum lögum var ætlað að takast á við. Það er bara galið að það hafi liðist. Þannig að jú, aukið samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði (Forseti hringir.) eins og svo mörgum öðrum skiptir verulegu máli.