152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[15:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar til að spyrja hann út í það að nú kemur þetta mál inn og er sett fremst á dagskrá í dag. Ég held að allir séu þeirrar skoðunar að við eigum að hafa regluverkið í tengslum við málefni barna eins gott og nokkur kostur er, sama út frá hvaða mælistiku það er skoðað, en hér virðist vera einhver flýtir á og rökin eru þau að það þurfi að klára þetta áður en sveitarstjórnarkosningar fara fram 14. maí næstkomandi. Hvað sem þeim líður þá taka nýjar sveitarstjórnir ekki við fyrr en tveimur vikum eftir kosningar, 28. maí í þessu tilviki. Telur hv. þingmaður að það sé ástæða til að þetta mál sé afgreitt í flýti hér innan vikunnar núna eða að það sé nægilegt fyrir þingheim að klára það eftir að þing kemur saman eftir sveitarstjórnarkosningahléið, gefa þá tækifæri til umsagna og meðferðar nefndar með rýmri hætti en gefst með þeim asa sem boðaður hefur verið?