152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[16:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það var áhugavert að hlusta á hann og þá sérstaklega andsvar hans þar sem hann lýsir kannski því sem var gagnrýnt töluvert í fyrra við meðferð þessa málapakka, það væri hroðvirknislega fram gengið og ýmsir lýstu því þannig að þetta bæri þess merki að mikilvægast af öllu væri að þessi pakki næðist samþykktur hér á þingi til að flokkur ráðherra barnamála gæti barið sér á brjóst í aðdraganda kosninga og sagt að þessi mál hefðu klárast. Á sama tíma hefði verið fórnað einmitt því sjónarmiði sem fremst á að vera; hvað er barninu fyrir bestu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað hann telji skýra það að svona ofboðslega rík áhersla var lögð á það að koma þessum málapakka í gegn í júní 2021 þegar hann þurfti svo augljóslega á frekari vinnslu að halda. Það blasti við öllum sem skoðuðu málið af einhverri dýpt og þá er ég ekki farinn að tala um fjármögnun heildarverkefnisins.