152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[16:02]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Aftur mjög góð spurning. Ég fylgdist með þessari umræðu síðasta sumar og ég tel að það hafi verið pólitískir hagsmunir þar á bak við. Það voru pólitískir hagsmunir ráðherrans að fá málið í gegn, keyra það áfram og geta notað það í kosningabaráttunni að þetta hafi verið mál hans sem náði fram að ganga, mikið réttlætismál, sem það er. Öll mál sem lúta að barnaverndarmálum og barnaverndarlöggjöf eru mikil réttlætismál. Ég veit að hv. þingmaður kemur úr sama kjördæmi og ég og barnamálaráðherra var í því kjördæmi og flutti sig til höfuðborgarsvæðisins og vann góðan sigur, og tel ég fyrst og fremst á þessu máli. Það var það sem hans orðstír byggðist svolítið á. Það var verið að flýta sér að klára málið fyrir kosningar. Það er mín skoðun. Ég fylgdist ekki svo náið með þessu en mér fannst strax umræðan vera svolítið þannig, vera svolítið gagnrýnislaus á sínum tíma. Og ég ítreka að það var ekki gengið nógu langt í fyrra, þetta var ekki hugsað nógu langt. Og það voru aðrir hagsmunir en hagsmunir barnsins. Ég tel að þetta sé einfaldur málaflokkur ef þú horfir á þetta alltaf út frá hagsmunum barnsins, bæði stjórnkerfið og efni löggjafarinnar, þá er þetta einfaldur málaflokkur. En þegar farið er að horfa á hagsmuni sveitarfélaganna versus miðstjórnarvaldið versus einstaka stjórnmálamenn þá flækist málið bæði varðandi tímalengdina, hversu mikið á að hraða málinu og þá minnkar vandvirknin. En það er mjög mikilvægt að stjórnkerfið byggi á bestu þekkingu sem völ er á í landinu, það sé einfalt og skjótvirkt. Það er grundvallaratriði. Vandamálið í íslensku samfélagi sem er svona fámennt, sérstaklega í strjálbýlum sveitum, er að fá öfluga fagþekkingu. Ég þekki það bara sjálfur í umgengnismáli úti á landi, það var nálægð. Ég fór svo inn á matsölustað um kvöldið, um helgina, og þar hitti ég einstakling sem ég var að eiga við, þ.e. var með til úrskurðar. Það var mjög óþægilegt. Nálægðin er mjög erfið. Það þarf að hafa fjarlægð — ég tala nú ekki um armslengd í Íslandsbankasölunni — en það þarf að hafa ákveðna fjarlægð frá þessum málum og faglega þekkingu.