152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:05]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Að misbeita opinberu valdi í einkaþágu er skilgreiningin á spillingu. Í öllum störfum stjórnvalda er hvergi eins mikil hætta á spillingu einmitt eins og þegar ríkiseignir eru seldar. Eins og við Píratar vöruðum ítrekað við í aðdraganda sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur núverandi fjármála- og efnahagsráðherra skilið eftir sig slóð spillingarmála og klúðrað þegar kemur að sölu ríkiseigna. Það er þess vegna sem Píratar voru á móti þessari sölu. Auk þess er hann allt of persónulega tengdur í íslenskt viðskiptalíf til að geta talist hæfur til að fara með slíka sölu. Og úr varð sem varð; framkvæmdin var ekki í samræmi við lög og þekktir leikendur úr bankahruninu, auk pabba ráðherra, eignuðust hlut í bankanum á afslætti. Afslátturinn sem átti að laða að langtímafjárfesta nýttist þess í stað bröskurum í gróðavon. Söluaðilar voru staðnir að því að selja sjálfum sér og margir á kaupendalistanum höfðu stöðu innherja. Skilgreiningin á hæfum fjárfestum var svo óljós að alls konar braskarar komust að. Á þessu ber fjármála- og efnahagsráðherra lagalega og pólitíska ábyrgð.

Forseti. Það liggur beinast við að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji að framkvæmd útboðsins hafi verið í samræmi við þær fyrirætlanir sem kynntar voru í ráðherranefnd um efnahagsmál í aðdraganda þess. Hvernig sá forsætisráðherra fyrir sér að tryggja aðkomu hæfra fjárfesta sem eiganda bankans þegar salan var undirbúin? Var það rætt í ráðherranefnd um efnahagsmál að gera einhvers konar lágmarkskröfur til fjárfesta, t.d. um lágmarkshlut, til að tryggja þátttöku hæfra langtímafjárfesta? Finnst forsætisráðherra að þessum kröfum hafi verið mætt ef þær voru þá einhverjar yfir höfuð?

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur greint frá því að hún hafi viðrað áhyggjur sínar í ráðherranefnd um efnahagsmál í aðdraganda útboðsins. Það verður að teljast alvarlegt að ekki hafi verið hlustað á áhyggjur hennar í ljósi þess að ráðherranefndinni er einmitt ætlað að vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hún brást við sjónarmiðum viðskiptaráðherra um að notast frekar við opið útboð. Einnig vil ég spyrja hvort forsætisráðherra taki undir með viðskiptaráðherra um að ábyrgðin á söluferlinu hljóti að liggja hjá stjórnmálamönnunum sem tóku ákvarðanirnar í málinu.

Að lokum vil ég ítreka þá kröfu stjórnarandstöðunnar hér á þingi að sett verði á fót rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka lokaða útboðið þann 22. mars síðastliðinn. Tilgangur skipan rannsóknarnefndar er bæði að rannsaka sjálfa framkvæmd útboðsins í þaula en einnig að leiða fram pólitísku ábyrgðina og rekja alla þá þræði sem til þarf svo að heildarmyndin sé skýr.

Það að ríkisendurskoðandi sé þegar að rannsaka málið kemur ekki í veg fyrir skipan rannsóknarnefndar og raunar væri best að slík rannsóknarnefnd hefði störf sem allra fyrst í ljósi umfangs slíkrar rannsóknar. Við vitum að ríkisendurskoðandi getur vel starfað með og samhliða rannsóknarnefnd og niðurstaðan myndi skila umfangsmeiri og haldbærari niðurstöðu enda eru rannsóknarheimildir nefndarinnar víðari en ríkisendurskoðanda.

Forseti. Við sjáum leiðtoga ríkisstjórnarinnar hríðfalla í traustmælingum eftir þessa bankasölu. Hvað græðir ríkisstjórnin á því að koma ekki til móts við áhyggjur stjórnarandstöðunnar, sem er jú málsvari tæprar hálfrar þjóðarinnar? Til hvers að skapa sundrung sem fylgir því að sættast ekki á kröfu stjórnarandstöðunnar um rannsóknarnefnd? Mikilvægt skref í að auka traust er að hlusta á áhyggjur og ákall þjóðarinnar og ná samstöðu í þinginu um hvernig við rannsökum þetta mál. Það skiptir öllu máli upp á trúverðugleika rannsóknarinnar að hún sé á forsendum þingsins en ekki á forsendum stjórnarinnar sem framkvæmdi söluna og þingmeirihlutans sem keppist nú við að veita henni skjól. Ég hvet því hæstv. forsætisráðherra til að verða við kröfu stjórnarandstöðunnar um að setja á fót rannsóknarnefnd strax.