152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:10]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst þakka málshefjanda, hv. þm. Halldóru Mogensen, fyrir að eiga hér orðastað við mig undir þessum lið og ég mun reyna að fara yfir nokkur atriði af þeim sem hún setti á dagskrá í sinni upphafsræðu. Fyrst vil ég byrja á að rifja upp að við höfum auðvitað hér á þingi samþykkt lög um það hvernig eigi að haga undirbúningi á sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar ber að rifja upp að í greinargerð með frumvarpi til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir:

„Söluferli eignarhluta í fjármálafyrirtækjum má skipta upp í tvo meginþætti, annars vegar í ákvörðun um sölu og fyrirkomulag hennar og hins vegar ferlið sjálft eftir að ákvörðun hefur verið tekin.“

Hv. þingmaður spyr hér um ábyrgð og ég vil segja að það er alveg ljóst að ráðherra og ríkisstjórn bera pólitíska ábyrgð á þeirri ákvörðun að selja þennan hluta Íslandsbanka sem og að samþykkja þá aðferð sem ákveðin var að tillögu Bankasýslunnar, þeirrar fagstofnunar sem fer með þessa framkvæmd og heldur utan um þessa eignarhluta. Hugsunin á bak við Bankasýsluna, mér finnst ástæða til að minna á það, er að mikilvægt væri að tryggja ákveðna fjarlægð og að sala eignarhluta færi fram með hlutlægum hætti. Ég sé því fleygt að tillagan um þessa aðferð hafi komið frá stjórnmálunum. Það er ekki rétt og það blasir klárlega við þegar lesið er minnisblað Bankasýslunnar þar sem þessi aðferð er rökstudd. Ég vil líka segja að ferlið í undirbúningnum er mjög formfast, það koma mjög margir að undirbúningi ákvörðunar um sölu. Í þessu tilfelli var tilskilinna gagna aflað og bæði Bankasýslan og hæstv. fjármálaráðherra sendu frá sér skjöl um aðstæður og meginsjónarmið. Alþingi hafði aðgang að sömu upplýsingum og ríkisstjórn og ráðherranefnd höfðu í aðdraganda sölunnar. Ég ætla ekki að rifja hér upp dagsetningar í þessu en ég vil bara segja að þessi undirbúningur og ferill, bæði af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis, var í samræmi við bæði lagalega umgjörð og pólitíska stefnumörkun.

Síðan er það hvað hvernig framkvæmdin tekst til og hvað var rætt í raun og veru, eins og hv. þingmaður spyr hér sérstaklega um, á vettvangi ráðherranefndar og ríkisstjórnar. Í minnisblaði Bankasýslunnar, þar sem mælt er með tilboðsaðferðinni, kemur fram að þó að stofnunin mæli eindregið með þessari aðferð, hún sé nýtt á alþjóðlegum vettvangi, þá sé það svo, vegna þess að ferlið sé með þeim hætti, að ekki sé unnt að tryggja gagnsæi að fullu.

Um þetta var rætt sérstaklega á ráðherranefndarfundi um efnahagsmál og enn fremur var þetta rætt á ríkisstjórnarfundi í framhaldinu. Svörin voru að reynt yrði að tryggja gagnsæi eftir fremsta megni og ég get bara játað hér að mér hafði ekki einu sinni hugkvæmst það fyrir fram að stofnunin myndi hafna því að birta lista yfir kaupendur að ríkiseign, því að fyrir mér hlýtur það að blasa við að það hljóta önnur sjónarmið að eiga við þegar höndlað er með eignir ríkisins eða þegar höndlað er með hluta í fyrirtækjum á einkamarkaði. Þess vegna verð ég að segja það, af því að hér er líka spurt hvort þessi framkvæmd hafi staðið undir mínum væntingum; varðandi þennan hluta máls, jafnvel þó að sagt hafi verið að þetta væri ekki að fullu gagnsætt ferli, þá verð ég að segja að ég var hissa á þessari framgöngu og finnst það ábyrgðarhluti að tryggja ekki meira gagnsæi þegar um er að ræða sölu á almannaeign.

Það hafa önnur álitamál vaknað og hv. þingmaður nefnir hér til að mynda hæfa fjárfesta. Við eigum auðvitað skilgreiningu á hæfum fjárfestum í Evrópuregluverki, en það hafa vaknað álitamál sem snúast um það hvernig staðið var að því að nálgast þessa hæfu fjárfesta og fleiri atriði sem hafa verið nefnd, m.a. hvort aðilar tengdir þeim fyrirtækjum sem Bankasýslan réð til verksins hafi keypt hluti, og sé svo þá er eðlilegt að spurt verði til að mynda hvort slíkt samræmist hlutverki og skyldum söluaðila.

Ég ætla ekki að telja upp fleiri álitamál, ég gæti gert það hér en tíminn er skammur.

Þá vil ég koma að því sem hv. þingmaður nefndi hér hvað varðar rannsóknarnefnd. Ég vil segja það að Ríkisendurskoðun starfar ekki í umboði framkvæmdarvaldsins. Ríkisendurskoðun er stofnun Alþingis. Seðlabankinn og fjármálaeftirlit Seðlabankans ákvað að fara í þá rannsókn sem lýtur sérstaklega að söluráðgjöfunum. Þá vil ég nefna það að þegar við settum lög um rannsóknarnefndir var það mjög skýrt að slík úrræði bæri einungis að nota ef einsýnt væri að ekki væri unnt að notast við hin hefðbundnu rannsóknarúrræði, því að úrræðið er sérúrræði. Ég hef ekki séð það með sannfærandi hætti að Ríkisendurskoðun hafi ekki fullar heimildir til að rannsaka þetta mál. Sé svo ekki, og nú vil ég minna á að Ríkisendurskoðun hefur mjög ríkar heimildir og getur m.a. leitað atbeina dómstóla í því tilviki, þá ber okkur að sjálfsögðu að skoða aðrar leiðir eins og lagt var upp með þegar við samþykktum hér lögin um rannsóknarnefndir — ég biðst afsökunar, frú forseti, ég veit að ég er búin með tímann og ekki búin með allt sem ég vildi sagt hafa — en það er okkar skylda að allt verði uppi á borðum í þessu máli. Og skorti Ríkisendurskoðun heimildir til þess, nú eða Seðlabankann, þá ber okkur að leita frekari leiða til þess.

Ég kem nánar að frekari atriðum sem hv. þingmaður nefndi hér í síðari ræðu minni.