152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil hefja mál mitt á því, vegna ummæla hæstv. forsætisráðherra um að það hafi verið hæfir fjárfestar sem tóku þátt í þessu lokaða útboði, að segja að það er ekkert hugtak í lögum sem heitir hæfir fjárfestar. Það er til hugtak sem heitir fagfjárfestar. Og hverjir eru fagfjárfestar á Íslandi og í heiminum? Jú, það eru þeir sem geta tekið áhættu á markaði. Þeir geta fjárfest án neytendaverndar. Það eru fagfjárfestar. Það er ekki merkilegt hugtak í sjálfu sér. Það geta allir orðið fagfjárfestar í sjálfu sér, en spurningin er: Hver er hæfur fjárfestir til að eiga banka? Í orðum forsætisráðherra virðist liggja sú hugmynd að það hafi verið hæfir fjárfestar til að eiga banka sem tóku þátt í þessu lokaða útboði. Það er bara rangt. Það er eins rangt og það getur orðið.

Mig langar aðeins að fara yfir söguna af því af hverju Bankasýsla ríkisins var stofnuð. Það var vegna þess að sænski bankasérfræðingurinn Mats Josefsson, sem kom til landsins og var formaður nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, lagði til að stofnuð yrði Bankasýsla ríkisins. Til hvers? Josefsson sagði mikilvægi Bankasýslu ríkisins ótvírætt til að takmarka pólitísk afskipti af rekstri bankanna. Hvar hefur Bankasýsla ríkisins verið? Jú, hún er búin að vera undir núverandi fjármálaráðherra alla tíð nánast. Þegar hann var forsætisráðherra var Bankasýsla ríkisins undir forsætisráðuneytinu. Hann flutti hana með sér í fjármálaráðuneytið. Það eru trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru stjórnendur Bankasýslu ríkisins, engir aðrir, og þar er ekki verið að leita að hæfileikafólki. Það sannar þetta lokaða útboð frá A til Ö.

Annað sem mig langar að benda á er að það var talað um pólitíska ábyrgð. Jú, það má tala um pólitíska ábyrgð. En hver ber ábyrgð á því að þetta lokaða útboð hafi verið framkvæmt samkvæmt lögum eða ekki? Það er skýrt lögbrot þarna, brot á meginreglum laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, brot á 3. gr. (Forseti hringir.) Engin skilyrði nema það áttu að vera fagfjárfestar sem máttu taka þátt í útboðinu. Og í hverja var hringt? Það er stóra spurningin. (Forseti hringir.) Við fengum lista með 207 nöfnum og sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina keypti fyrir 1.100.000 kr. Sérfræðingur í að meta áhættu. (Forseti hringir.) Sjálfur keypti ég fyrir eina milljón á síðasta ári. Það er 100.000 kr. munur. Þetta útboð er algjört hneyksli (Forseti hringir.) og almenningi á Íslandi er algjörlega misboðið.

(Forseti (ÁLÞ): Ég ætla að minna alþingismenn á að ræðutími er tvær mínútur.)