152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Útboðið í Íslandsbanka var það þriðja stærsta í Íslandssögunni, sala upp á rúma 50 milljarða kr. Enn og aftur sannast að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi fyrir sölu ríkiseigna. Ef við horfum til viðbragða ríkisstjórnarinnar þá sést að hún tekur sjálf undir það, hefur tilkynnt að hún treysti sér ekki í frekari sölu. Ríkisstjórnin veit að hún er rúin trausti.

Þeir þrír ráðherrar sem höfðu mest um söluna að segja sitja í ráðherranefnd um efnahagsmál; Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Lilja Alfreðsdóttir. Hér þarf því að þora að ræða pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í aðdraganda sölunnar því þær skipta mestu máli um það hvernig til tókst. Lykilspurningar sem forsætisráðherra verður að svara eru: Með hvaða rökum varð sú ákvörðun ofan á í ráðherranefndinni að fara í lokað útboð? Með hvaða rökum féllst forsætisráðherra á aðferð fjármálaráðherrans við söluna? Með hvaða rökum hafnaði forsætisráðherra viðvörunarorðum viðskiptaráðherra sem sagðist mótfallin aðferðafræðinni við söluna? Og fyrst viðskiptaráðherra lýsti því yfir í aðdraganda sölunnar, telur forsætisráðherra þá að viðskiptaráðherra hafi gerst brotlegur við siðareglur ráðherra með því að upplýsa þjóðina ekki um þessi sjónarmið sín fyrr en eftir að útboðið hafði farið fram? Siðareglurnar tala um að ráðherra skuli ekki leyna upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess. Siðareglurnar kalla á viðskiptaráðherra.

Aðrar spurningar snúast um hæfi. Átti fjármálaráðherra að víkja sæti við meðferð þessa máls á einhverju stigi vegna sjónarmiða um vanhæfi? Faðir hans er tilboðsgjafi. Ég vek athygli á því að hafi svo verið þá er hann enn vanhæfur. Nú á að láta FME rannsaka söluna. FME heyrir undir fjármálaráðherra. (Forseti hringir.) Svarið um það hversu vel tókst til sést best á því að líf ríkisstjórnarinnar veltur núna á því loforði fjármálaráðherra að engin frekari sala verði (Forseti hringir.) og tugir milljarða sem nýta mætti í þágu samfélagsins í innviðafjárfestingar hafa lokast inni í bankanum.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir ræðumenn á að virða tímamörk.)