152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að við bærum öll ábyrgð á því að hafa samþykkt lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er ekki rétt, frú forseti. Ég samþykkti ekki þessi lög og hæstv. fjármálaráðherra var á móti þeim. (Forsrh.: …ber ábyrgð á þeim?) Eflaust. En það breytir ekki því, hæstv. forsætisráðherra, að þetta eru lög og þeim ber að fylgja rétt eins og lög um Stjórnarráð Íslands eru lög sem ber að fylgja. Telur hæstv. forsætisráðherra að þegar ríkisstjórnin, eftir því sem fram kom í yfirlýsingu frá henni, samþykkti að leggja niður Bankasýslu ríkisins sem viðbrögð við þessu máli hafi hún farið eftir 6. gr. laga um Stjórnarráð Íslands? Það hefur reyndar komið í ljós að það var ekki fundað með ríkisstjórninni um þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar, en telur hæstv. forsætisráðherra að lögum hafi verið fylgt í þessu? Sumir telja eflaust að með þessu sé verið að hanga í einhverri formfestu en Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur nú ekki verið mótfallin formfestu fram að þessu eins og birtist m.a. í breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands og Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur ekki verið mótfallin rannsóknarnefndum Alþingis fram að þessu. En það eru breyttir tímar. Nú heldur VG áfram að einkavæða ríkisbanka og VG heldur áfram að beita sér gegn því að Alþingi rannsaki slíkt ferli. Það hefur því komið á daginn að miklar breytingar hafa orðið hjá flokki hæstv. forsætisráðherra. Og það var ekki farið rétt með þegar fullyrt var að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um með hvaða hætti skyldi brugðist við gagnrýni á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Telur hæstv. forsætisráðherra ekki tilefni til þess að (Forseti hringir.) leiðrétta eitthvað af fyrri yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í þessu máli?