152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, pólitískar ákvarðanir skipta máli og það var mikilvægt að ríkisstjórnin fór í áframhaldandi sölu á hlut okkar í Íslandsbanka vegna þess að það skiptir máli að losa um það eignarhald og nýta þá fjármuni í að lækka skuldir ríkisins, okkur öllum til hagsbóta. Það var rétt pólitísk ákvörðun. Þau markmið sem sett voru með sölunni lítur út fyrir að hafi flest náðst. En það er alveg rétt að traustið skiptir öllu máli. Hv. þm. Logi Einarsson sagði að það ætti að selja með hag almennings að leiðarljósi. Upplifun okkar sem komum að ferlinu í fjárlaganefnd var einmitt að sú leið sem verið væri að leggja til væri til þess fallin, vegna þess að hún átti að fela í sér bestu leiðina til að ná mestum fjármunum inn í ríkiskassann. Það lítur reyndar út fyrir að það hafi gengið eftir. Engu að síður eru enn þá uppi spurningar sem við verðum að fá svar við. Traustið er nefnilega lykilatriði hér. Ég er sammála hv. þm. Loga Einarssyni um að það er okkar verk að endurbyggja þetta traust. Það gerum við með því að velta við öllum steinum og spyrja réttu spurninganna. En það gerum við ekki með því að koma hér upp með yfirlýsingar um lögbrot og fullkomlega vitlausar staðreyndir. Við þurfum ekki á fleiri sögusögnum að halda, hv. þm. Eyjólfur Ármannsson. (EÁ: Hvaða sögusögn?) Bankasýslan fylgdi Bjarna Benediktssyni (EÁ: Hvaða sögusögn?) ekki milli ráðuneyta. Það er algjört fleipur og vitleysa og við þurfum ekki á meiri vitleysu að halda inn í þessa umræðu. Tökum ábyrgð á þessu. Spyrjum spurninganna, ræðum þetta til hlítar og veltum við öllum steinum svo við getum byggt aftur upp traust á því að umbreyta þeim miklu verðmætum (Forseti hringir.) sem eru í bankanum okkar, í fjármuni í ríkiskassanum, okkur öllum til hagsbóta.