152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:40]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna. Hvaða sögusögnum? Þetta eru bara staðreyndir. Við flettum þessu upp. Ég biðst afsökunar ef þessi staðreynd er vitlaus. (Gripið fram í.) Þetta er sáraeinfalt mál. Sögusagnir eru eitthvað sem er óstaðfest og ekki hægt að skjalfesta.

Mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið, ég hef reyndar skamman tíma. Varðandi lögin um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum þá hefur því verið haldið fram að þau hafi verið brotin. Ég er á þeirri skoðun. Ég er á þeirri skoðun að meginreglur um sölumeðferð hafi verið brotnar. Ég skal fara yfir það. Það er krafa um gagnsæi. Það var reyndar horfið frá því lögbroti. Íslandsbanki hélt því fram að það væri ekki hægt að birta lista smæstu fjárfestanna með vísan til persónuverndarlaga. Stjórnarformaður Bankasýslunnar vísaði til bankaleyndar. Stór hluti smæstu fjárfestanna eru lögaðilar. Persónuverndarlög eiga ekki við um þá. Bankaleynd á ekki við um hluthafa. Það á bara við um viðskiptamenn banka. (Gripið fram í.) Ég hef unnið við persónuverndarlög í fjögur ár erlendis. Þar má vinna persónuupplýsingar á grundvelli almannahagsmuna. Það voru almannahagsmunir að við fengjum þessar upplýsingar. (Gripið fram í.) Það er líka lagaskylda um gagnsæi. Það var fallið frá því. Það var lögbrot sem var fullframið á sínum tíma. Það er krafa um hagkvæmni. Hvað þýðir hagkvæmni? Hæsta verð? Það var selt með afslætti í umframeftirspurn, það er ekki hæsta verð og það er brot á ákvæðum um hagkvæmni. Skilyrði tilboðsgjafa sem sett eru eiga að vera sanngjörn og í þeim verður að gæta jafnræðis. Ég tvíspurði hæstv. fjármálaráðherra í gær hver skilyrðin voru en fékk engin svör. Það virðast engin skilyrði hafa verið sett sem stuðluðu að sanngirni og jafnræði meðal fagfjárfestanna. Spurningin er alltaf: Í hverja var hringt? Við fengum upplýsingar um í hverja var hringt. Hverjir hringdu? Söluráðgjafarnir. Þeim var úthlutað valdinu og þeir fengu 700 milljónir fyrir að hringja. Stúdentar sem eru að safna fyrir útskriftarferð hefðu getað hringt. Ég hefði getað hringt. (Forseti hringir.) Annað skilyrði var að efla virka (Forseti hringir.) og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði. Ekkert um það. Það er engin samkeppni (Forseti hringir.) á fjármálamarkaði, hún er ekki til. Þetta er sjálftaka í hagnaði þarna. Hagnaður Íslandsbanka milli áranna 2020–2021 (Forseti hringir.) fjórfaldaðist, úr 6,7 milljörðum í 23 milljarða. Það er verið að selja mjólkurkú í samkeppnisleysi.

(Forseti (JSkúl): Forseti ítrekar áminningu sína um að virða ræðutíma og biður ræðumenn og hv. þingmenn að eiga ekki samtöl hér á milli ræðustóls og sætis.)