152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt um stóru myndina við söluna á Íslandsbanka. Þeirri mynd hefur ríkisstjórnin klúðrað stórkostlega. Við eigum nefnilega enn eftir 100 milljarða sem við getum ekki notað, þökk sé Sjálfstæðisflokknum, til niðurgreiðslu ríkisskulda og innviðauppbyggingar, og af hverju? Því að traustið er farið. Og ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir þessari stöðu. Hún getur ekki selt, hún segir það sjálf, því að traustið til frekari skrefa er ekki til staðar. Traustið verður að byggja upp en það verður einungis gert með því að velta við öllum steinum.

Við höfum líka saknað þess að sjá ekki skýra framtíðarsýn um samkeppni á fjármálamarkaði. Hana er ekki að finna hjá ríkisstjórninni þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar frá Samkeppniseftirlitinu. Stefna okkar í Viðreisn hefur líka alltaf verið skýr varðandi sjónarmið almannahagsmuna. Við höfum stutt það að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka og eiga kjölfestuhlut í Landsbankanum. En við höfum líka sagt að það eigi ekki að gefa afslátt af kröfum um gegnsæi, af kröfum um skýra upplýsingagjöf, en ekki síður að gefa engan afslátt hvað varðar skýra pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð. Ríkisstjórnin hefur farið fram með þeim hætti að það kemur ekkert á óvart að traustið sé nánast að engu orðið. Það hefur sárlega vantað skýr svör frá ríkisstjórninni og þegar talað er þá fara hljóð og mynd ekki saman. Ég skil að það eru miklir pólitískir hagsmunir í húfi og sjálfsréttlæting stjórnarþingmanna hér þessa dagana undirstrikar það að vissu leyti. En það þarf að rannsaka málið og það þarf að endurheimta traustið sem þessi ríkisstjórn hefur glatað. Og því fyrr sem ríkisstjórnin áttar sig á því, því betra. Það er í þágu almannahagsmuna að ríkisstjórnin kveiki á perunni hvað þetta varðar.