152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir ágæta umræðu. Ég vil segja það, af því að hv. þm. Logi Einarsson sagði í sinni ræðu að þegar nöfnin komu í ljós þá vöknuðu spurningar, að nöfnin birtust ekki af sjálfu sér. Það var ákvörðun ráðherra að birta nöfnin. Nákvæmlega þessi ákvörðun lýsir þeirri afstöðu sem ég get ekki betur heyrt en að talsmenn allra flokka hér hafi lýst í þessari umræðu og það er eindreginn vilji til þess að upplýsa þetta mál og að það ríki gagnsæi um ferlið vegna þess að við vitum að það er undirstaða trausts. Ég kann að hafa hlustað bara sérstaklega eftir þessum orðum en ég gat ekki betur heyrt en það væri samhljómur með þessu hjá hverjum einasta hv. þingmanni sem hér talaði.

Ég vil hins vegar segja að ég get ekki fallist á það þegar rætt er hér um meint sjálfstæði Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun er stofnun Alþingis. Ég treysti þeirri stofnun vel. Ég hef ekki neinar upplýsingar um það að Ríkisendurskoðun telji sig ekki hafa fullnægjandi heimildir til að skoða þetta mál. Ég treysti því að Ríkisendurskoðun muni upplýsa þingið ef svo ber undir að þær heimildir skorti. Þá munum við ræða það, eðli máls samkvæmt, en ég hef engar upplýsingar um að Ríkisendurskoðun hafi lent á einhverjum hindrunum í þeim efnum.

Mér finnst mikilvægt að segja, af því að ég hef örlítið rýmri tíma, af því að hér var því haldið fram að Bankasýslan hefði verið flutt úr fjármálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneyti: Það gerðist ekki. Það var ekki þannig. Hún hefur bara verið í fjármálaráðuneytinu allan tímann og ég er búin að fletta upp í forsetaúrskurðum aftur í tímann, bara til upplýsingar. Ég vil líka segja að Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðuneyti. Hann er hins vegar sjálfstæð stofnun. Undir Seðlabankann heyrir Fjármálaeftirlitið sem sömuleiðis er mjög sjálfstætt í störfum sínum. Mér finnst þetta mikilvægt því að við erum öll á Alþingi Íslendinga og þetta eru þær stofnanir sem við höfum sett á, auðvitað allar með lögum og þær heyra ýmist undir Alþingi eða þeim er markað sérstakt sjálfstæði í lögum. Þess vegna vil ég segja það mjög skýrt að ég get ekki tekið undir þann málflutning þegar gefið er í skyn að þessar stofnanir séu á einhvern hátt ótraustar eða standi ekki undir hlutverki sínu.

Hér var rætt um hugtakið hæfir fjárfestar sem kom fyrir í þessari greinargerð, sem skilgreint er í e-lið 2. gr. reglugerðar ESB nr. 2017/1129, sem var innleidd með lögum nr. 14/2020. Það er búið að ræða mjög mikið hvaða skilning í raun og veru eigi að leggja í þetta hugtak því að það skiptist upp í tvo flokka. Ég held að mörg sem komu að þessu máli hafi kannski ekki alveg nákvæmlega áttað sig á þeim skilgreiningum, sem eru töluvert ólíkar, sem falla undir hugtakið hæfir fjárfestar samkvæmt þessu regluverki. Það er eitt af því sem ég tel fulla ástæðu til að ræða og varðar það sem ég hef rætt margoft hér, bæði í pontu og annars staðar, og varðar upplýsingagjöf til almennings. Þegar Bankasýsla ríkisins leggur til þessa aðferð — og þannig var þetta vissulega, það var hún sem lagði til að nota þessa aðferð — er það í fyrsta sinn sem þetta er gert á Íslandi. Vissulega er vitnað til þess að þetta sé aðferð sem þekkist alþjóðlega og færður ítarlegur rökstuðningur fyrir því. En þá er enn ríkari skylda í raun og veru, finnst mér, að miðla upplýsingum um það hvað felst í aðferðinni.

Hv. málshefjandi spurði sérstaklega um umræður í ráðherranefnd um efnahagsmál og ég ætla að fá að koma að því. Þar komu fram ýmis sjónarmið. Það er bara staðreynd máls. Ég lagði til að mynda mjög mikla áherslu á gagnsæi og upplýsingagjöf til almennings, m.a. vegna þess að um það var sérstaklega rætt í greinargerð. Það voru líka rædd þau sjónarmið að frumútboðsleiðin væri heppilegri en eins og fram hefur komið voru þessi sjónarmið ekki færð til bókar sem sérstakir fyrirvarar eða andstaða. Mér finnst mikilvægt að við höldum okkur við það að þannig er hagað málum á ráðherranefndarfundum, ef andstaða er bókuð þá er það sérstök ákvörðun og við þekkjum öll hvernig það fer fram. En auðvitað voru ýmis sjónarmið reifuð. Ég ætla svo sem ekki að fara lengra í því að vitna til orða samráðherra minna en get bara ítrekað þetta.

Ég vil ítreka að lokum að sá samhljómur sem ég skynja í þessum sal snýst um það að við viljum upplýsa þetta mál til fulls. Hér er spurt um ábyrgð og ég fór yfir það áðan í hverju ég teldi að sú pólitíska ábyrgð fælist. (Forseti hringir.) En ég vil líka segja að það er auðvelt að segja spilling, en það er mikilvægara og gagnlegra að huga að því og rannsaka til hlítar hvort einhver kunni að hafa misnotað eða nýtt aðstöðu sína. (Forseti hringir.) Þess vegna segi ég: Leyfum þeim aðilum sem við höfum ákveðið með lögum að eigi að fara með þetta hlutverk að ljúka vinnu sinni (Forseti hringir.) þannig að við getum tekið afstöðu til þess sem þar kemur fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt.