152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er fulltrúi Flokks fólksins í fjárlaganefnd og gögnin áttu að berast í dag. Ég held að það séu komnar þrjár vikur síðan við óskuðum eftir þessum gögnum. Þetta eru ekki bara spurningar sem við lögðum fram, það var líka óskað eftir gögnum. Þetta eru raunverulega gögn sem eiga bara að vera til á skrifborðum þeirra og þeir eiga að senda okkur þau. Við erum m.a. að tala um samninga við söluráðgjafana sem fengu 700 milljónir fyrir starf sitt, sem er ansi vel í lagt, fyrir að hringja út til 207 einstaklinga. Það er engin vinna á bak við það að ljósrita þessi gögn og senda til okkar. Ég hélt á sunnudagskvöld að ég ætti að fara á fund fjárlaganefndar morguninn eftir en honum var frestað vegna þess að gögnin voru ekki komin og það var ekki búið að svara spurningunum sem fylgdu beiðni um gögnin. Mér skilst að gögnin séu ekki enn komin. Ég ætla samt að vona, og ég óskaði eftir því sérstaklega í tölvupósti aðfaranótt mánudagsins, að við höldum okkur við fundinn á mánudeginum án gagna og höfum svo annan fund seinna þegar gögnin liggja fyrir.

Ég ætla rétt að vona að við fáum a.m.k. að hitta þá vegna þess að ansi margir þingmenn og nefndarmenn eru vel inni í málinu. Þessi dráttur á því að afhenda gögn og svör er vanvirðing við Alþingi og fjárlaganefnd mun bóka um það mál og gerði það á síðasta fundi. Ég tel að forseti þingsins eigi að taka það mál fyrir.