152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Það hefur verið áhugavert síðustu daga að fylgjast með því hvernig talpunktar ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða hafa þróast og hvernig handbókin varðandi Ríkisendurskoðun er orðin full af, ég veit ekki hvað maður getur kallað þetta, þetta er drullutaktík. Auðvitað berum við fullt traust til stofnunar Alþingis sem er Ríkisendurskoðun. Auðvitað berum við traust til þess að Ríkisendurskoðun geti sinnt því hlutverki sem henni er sett í lögum. Það sem við sem tölum fyrir sjálfstæðri rannsóknarnefnd Alþingis í kringum sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka erum að fara fram á er nefnd sem getur rannsakað hluti sem Ríkisendurskoðun getur ekki samkvæmt lagalega skilgreindu hlutverki sínu. Snýst ekkert um traust. Snýst um skilgreint hlutverk stofnunarinnar. Það að þessir talpunktar sem voru búnir til uppi í Arnarhvoli og faxaðir hingað niður (Forseti hringir.) að Austurvelli, fái að renna í gegnum hvern munn stjórnarliða (Forseti hringir.) á fætur öðrum — því þarf að linna, frú forseti, því það er óheiðarlegasta pólitík sem ég hef séð í langan tíma.