152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:14]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst ástæða til að nefna varðandi rannsóknarnefndina að þegar kemur í ljós eftir söluna á bankanum, þegar við fáum að sjá listann yfir kaupendur og við áttum okkur á hvers kyns klúður þessi sala var, þá kemur stjórnarandstaðan sér saman um eina beiðni. Þetta er mjög einföld beiðni og hún kom strax fram og það voru okkar viðbrögð við þessari sölu að við báðum vinsamlegast um að fá að setja á fót rannsóknarnefnd. Það var ekki hægt. Af hverju ekki? Nú, út af því að fjármálaráðherra var bara búinn að biðja Ríkisendurskoðun um að rannsaka þetta fyrir sig. Þá var ekki hægt að koma til móts við stjórnarandstöðuna. Í staðinn er öllu hleypt upp hérna á þingi. Af hverju? Ég skil ekki af hverju. Það hefði verið svo miklu einfaldara að fallast bara á þessa sjálfsögðu beiðni um að þingið stæði saman að því að rannsóknin á þessari bankasölu væri á forsendum þingsins alls (Forseti hringir.) en ekki á forsendum fjármálaráðherra. Af hverju er það ekki hægt? Ég bara skil þetta ekki, forseti. Ég skil þetta ekki.