152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Því miður erum við að sjá enn einu sinni að framkvæmdarvaldið er að senda Alþingi gögn allt of seint. En það eru ekki bara gögn sem við fáum seint. Við fáum líka fundarboð seint. Ég var t.d. rétt áðan að fá fundarboð fyrir nefndarfund sem er í fyrramálið. Já og dagskrárnar berast seint. Það var ekki fyrr en um hádegi á mánudaginn sem við vissum einu sinni hvað við ætluðum að tala um á þinginu þann daginn. Þetta eru náttúrlega óvönduð vinnubrögð. Hvernig eigum við sem þingmenn að geta sinnt eftirlitshlutverki okkar, að geta sinnt því hlutverki okkar að setja góð lög ef við fáum aldrei tíma til þess að skoða gögnin? Við erum með á dagskrá þingfund hér til miðnættis og við erum með nefndarfundi í fyrramálið (Forseti hringir.) og gögnin eru ekki enn þá komin fyrir það sem við eigum að vera að skoða í fyrramálið. (Forseti hringir.) Þegar hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) talaði um það hvernig hlutirnir væru á Landspítalanum þá vildi hann meiri skilvirkni og ég held að hæstv. forseti ætti að reyna (Forseti hringir.) að auka skilvirkni hér með því að bæta þessa hluti. Að lokum legg ég til — til þess að við getum bjargað þessari blessuðu bjöllu fyrir aftan mig — að við lengjum ræðutíma í fundarstjórn í tvær mínútur. (Gripið fram í: Það er örugglega ekki að fara að … skilvirknina.)

(Forseti (JSkúl): Enn hefur ekkert slíkt verið gert svo að ég árétta það að ræðutíminn er ein mínúta undir þessum lið.)