152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Nokkuð hefur borið á því að stjórnarliðar segi hér samkvæmt minnisblaði úr Fjármálaráðuneytinu stjórnarandstöðu vera úti um allt í gagnrýni sinni á bankasölu ríkisstjórnarinnar. Ég held að það kunni að vera vegna þess að þingmenn stjórnarflokkanna eru markvisst að afvegaleiða umræðuna, segja ósatt um orð okkar, segja ósatt um vilja okkar. Það vill svo til að þegar fólk byrjar að segja ósatt er það gjarnt á að ruglast á ósannindum sínum og staðreyndum. Við erum ekki að fjalla um hvort það hafi átt að selja bankann. Við erum ekki að fjalla um almennt vanhæfi embættis Ríkisendurskoðunar. Við erum að tala um ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra þegar hann tekur ákvörðun um að fara af þeirri leið sem kynnt var hér á Alþingi fyrir tveimur fastanefndum þingsins. Hann tók ákvörðun um að það yrði farið af þeirri leið. Við erum að tala um ábyrgð hans (Forseti hringir.) samkvæmt lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. (Forseti hringir.) Við erum að fara fram á rannsóknarnefnd Alþingis. Annað er ósatt.