152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:25]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist undir þessu samtali sem farið hefur fram hér dögum saman og er allt vegna þess að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ákvað að nota hina alþekktu smjörklípuaðferð þegar tilboð barst um stofnun rannsóknarnefndar. Og hér erum við enn væntanlega að strokka smjörið vegna þess að stjórnarflokkarnir, Vinstri græn Framsóknarflokkur, hafa slegið skjaldborg um hæstv. ráðherra svo ekki sé hægt að stofna rannsóknarnefnd. Ég þarf ekkert að fara yfir heimildirnar, þið þekkið þetta öll. Hér veit hver einasti læs þingmaður hver munurinn er á rannsóknarheimildum Ríkisendurskoðunar annars vegar og rannsóknarnefnda Alþingis hins vegar. Um það snýst málið. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ákvað að tefja málið, kaupa sér tíma svo í þeirri von væntanlega fyrir páska að allt yrði gleymt þegar Kristur væri upprisinn.