152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Málflutningur stjórnarþingmanna ber þess öll merki að verið sé að róa lífróður ríkisstjórnarinnar. Það er einföld krafa frá stjórnarandstöðunni að málið allt verði upplýst. Við hvað eru menn og konur hrædd hér? Eru stjórnarliðar hræddir við að velta við öllum steinum, fara þær leiðir sem við þekkjum úr sögunni að hafa lánast vel við að draga fram bæði framkvæmdahliðina og hina pólitísku ábyrgð? Pólitíski veruleikinn er sá í dag að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heldur vegna hneykslismála Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins núna á síðustu vikum lífi formanns Framsóknarflokksins og formanns Sjálfstæðisflokksins í hendi sér. Allir stjórnarþingmennirnir eru komnir á þann bát að reyna að bjarga ríkisstjórninni, að humma pínulítið málið fram af sér, (Forseti hringir.) aðeins að fá kælingu á það, aðeins að vinna tíma. Þetta er hinn pólitíski veruleiki dagsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)