152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:44]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Það er oft áhugavert að skoða stofn orðanna. Ég færði ykkur óvænta páskagjöf, með leyfi forseta og með leyfi framleiðanda, sem heitir Ransacked á ensku. Myndin fjallar um ránsfeng, en „ransacked“ þýðir rán á íslensku. Þetta er viðkvæmt orð og þessar orðsifjar vekja óhug. Það vill enginn láta setja sig á sakamannabekk og rannsaka sig og gjörðir sínar því að hinn mennski ófullkomleiki kann að koma í ljós. Ransacked fjallar um mennsk mistök og mannleg og eftirleik sem leiddi til þess ráns á íslenskum almenningi sem ekki er fallin í gleymsku, nema síður væri. Þannig að rannsóknarkrafan sem hér er dögum saman búin að vera í eyrunum á okkur öllum, og heldur vísast áfram, á ekki að takmarkast við rannsókn á mannlegum mistökum í bankasýslu eða hvar sem þau mistök hefjast. Hún á að halda áfram (Forseti hringir.) vegna þess að við gerðum rannsóknarskýrslu um aðdraganda hrunsins, ekki um eftirleikinn og þann harmleik (Forseti hringir.) sem ekki sér fyrir endann á hjá íslenskum almenningi og fjölskyldum.