152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég verð nú að viðurkenna skömm mína hvað það varðar að ég þarf greinilega að lesa mér betur til í lögum um opinber fjármál vegna þess að ef ég man rétt fór ég sérstaklega í óundirbúna fyrirspurn til fjármálaráðherra fyrir ekki mjög löngu síðan. Það gæti hafa verið annað form á því en mig minnir að það hafi verið óundirbúin fyrirspurn. Ég spurði efnislega um það hvers vegna ekki væri horft á tekjuhlutann af því að lífeyrisþegum væri gert auðveldara fyrir að nýta starfskrafta sína áfram, þeir sem það vildu og þeim sem það hentaði. Það var alveg afdráttarlaust svarað að það hefði ekki verið horft til þess að leggja mat á þá tekjuaukningu sem af því hlytist heldur bara kostnaðarhlutanum í hinu opinbera kerfi, í þessu tilfelli því að eldri borgarar nytu áfram þeirra lífeyrisréttinda sem þeir hefðu hvort sem er, vildu þeir ekki nýta svigrúm til þess að sinna störfum á markaði eða hvers lags störfum sem væru launuð. Þetta kallar eiginlega enn frekar á það að við reynum að ná utan um heildarmyndina í þessum velsældarpakka því að mér sýnist á öllu að enn sé þetta jafn laust í reipunum og það var og allt sem snýr að skilaboðum sveitarstjórnarstigsins hvað fjármálahlutann varðar er á sömu bókina lært. Þar man ég ekki eftir því, en hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef svo er, að hafa séð viðtal við sveitarstjórnarmann eða grein þar sem því er haldið fram að áætlanir um fulla fjármögnun hafi reynst raunhæfar.