152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:10]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Oft finnst mér hv. þingmaður flytja góðar ræður sem þarfnast ekki leiðréttinga en ef ég ætti að hafa tíma til að leiðrétta allt bullið sem kom fram í ræðu hv. þingmanns þá þyrfti ég aðeins meira en tvær mínútur. Það hafa verið fluttar mjög margar góðar ræður hér í dag, m.a. hjá Evu Sjöfn Helgadóttur, hv. þingmanni Pírata, sem fjallaði um þessi mál af þekkingu og einlægni. Þegar hv. þingmaður er að vitna m.a. í sveitarstjórnarmenn Miðflokksins (Gripið fram í.) sem fjalla um að farsældarlögin hafi ekki verið fjármögnuð, þá er það bara bull. Þingmaðurinn vitnar líka í sviðstjóra velferðarsviðs, Regínu Ásvaldsdóttur, sem er ekki að fjalla um farsældarlögin í þeirri grein sem hún skrifaði heldur um úrræði sem þurfa að byggjast upp fyrir börn með fjölþættan vanda. Það snýst ekki um farsældarlögin og það snýst ekki um þetta frumvarp hér. Hugsunin á bak við farsældarlögin er að draga úr úrræðaþörf á þriðja stigi með auknu samtali á milli kerfanna. Sá sem hér stendur hefur alltaf viðurkennt að það þarf aukið fjármagn inn í úrræði. Við ákváðum, það var meðvituð ákvörðun, að byrja á því að búa til farsældarlögin, byrja á þessum fasa í barnaverndinni, búa til farsældarlögin og auka samtalið milli kerfanna. Sú ákvörðun var tekin í samstarfi milli allra ráðuneyta við Samband íslenskra sveitarfélaga, við hagsmunaaðila í grasrótinni og við fulltrúa allra stjórnmálaflokka og þannig var málinu fylgt eftir í gegnum þingið, farsældarlögunum og þessum barnaverndarlögum. Í þeirri nefnd áttu fulltrúar allra stjórnmálaflokka, og fylgdu því alla leið, nema eins flokks á Alþingi og það var Miðflokkurinn. Þegar sá þingmaður sem var í þingmannanefndinni fyrir hönd Miðflokksins gat vegna veikinda og annarra starfa ekki setið áfram þá sá Miðflokkurinn ekki ástæðu til þess að skipa annan fulltrúa í þessa nefnd.

Farsældarlögin eru fullfjármögnuð og má ekki blanda því inn í það þegar við erum hér, að beiðni sveitarfélaganna, (Forseti hringir.) að fresta gildistöku barnaverndarlaga þannig að hægt sé að innleiða þau í auknu samstarfi og samvinnu, eins og þetta mál var. Og af því að hv. þingmaður var að tala um þingmannanefnd þá held ég einmitt að Miðflokkurinn ætti að skipa fulltrúa í þingmannanefndina því að þá yrðu ræðurnar innihaldsríkari.