152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:34]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara koma upp og halda þessu til haga af því að hv. þingmaður var að koma inn á þetta og það var ekki gagnrýni á hans ræðu með nokkrum hætti, ekki annað en að ég er eiginlega alveg sannfærður um þessa breytingu. Mennta- og menningarmálaráðuneytið var ekki þannig í gegnum tíðina, í alllangan tíma og með allmargar ríkisstjórnir — ríkið hefur skipt sér allt of lítið af leik- og grunnskólastiginu, hvað gerist þar. Fjármagnið hefur komið frá jöfnunarsjóði. Síðan hafa auðvitað grunnskólalögin og leikskólalögin verið á hendi menntamálaráðherra en allt of lítið samtal verið um það hvaða þjónusta fer þar fram, hvernig skólaþjónustan á vera, hvernig úrræðin eiga að vera inni í skólunum o.s.frv. Ég er eiginlega sannfærður um að þessi breyting með þessu nýja ráðuneyti muni gera það að verkum að við munum geta aukið samtalið þarna á milli og það mun skipta miklu máli.

Síðan vil ég bara fagna því sem hv. þingmaður segir og tek undir það, með annars stigs og þriðja stigs úrræði, að við þurfum að byggja upp miklu fleiri og fjölbreyttari úrræði og tryggja fjármögnunarmódelið á bak við þau, hvernig það er hugsað, bæði að taka samtalið við sveitarfélögin um kostnaðarskiptinguna og fjármögnunarmódelið á bak við. Verkefnið núna fram undan á grundvelli farsældarlöggjafarinnar er að endurskipuleggja öll úrræði sem ríkið og sveitarfélögin veita og hugsunin er að byrja þar á þriðja stigs úrræðunum. En við þurfum fyrsta og annars stigs úrræði líka vegna þess að það eru þau sem geta dregið úr þriðja stigs úrræðum. Það er ekki eðlilegt í íslensku samfélagi að þeim fjölgi alltaf ár frá ári, þeim börnum og þeim fjölskyldum sem þurfa á að halda þriðja stigs úrræðum í samfélaginu. Þess vegna þurfum við að hugsa þetta og það er hugsunin á bak við farsældina að ná að fara inn í fyrsta og annars stigs úrræði. En ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og það var svo sem ekkert meira sem ég vildi koma inn á hér nema bara að árétta þessi atriði.