152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[19:06]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við ætlum að gera er að innleiða þá hagrænu nálgun sem beitt var við farsældarfrumvarpið í nýtt ráðuneyti mennta- og barnamála þannig að það nái yfir alla málaflokka sem lúta að því ráðuneyti, sem eru íþróttir, tómstundir, æskulýðsstarf, félagsleg þjónusta, menntakerfið, leik-, grunn- og framhaldsskólar. Vandinn er sá að við sjáum ekki kostnaðinn. Allt sem sett er í þessi mál í dag er ekki að fara að skila einhverjum ávinningi á einu, tveimur, þremur árum, ekkert sem heitið getur. Jú, jú, kannski einu stöðugildi minna í einhverri barnaverndarnefnd o.s.frv., en ávinningurinn verður eftir 10, 15, 20 ár. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því og vera með tölusetta mælikvarða á það hverju það er skila og hvenær og hvaða úrræði eru að skila og hvenær. Það erum við ekki með í dag en við gerðum það í farsældinni. Síðan gerðum við þetta í málefnum fanga, beittum sömu reiknihugmyndafræði þar í félagsmálaráðuneytinu, þótt ég sé ekki með þau mál lengur, og við ætlum að gera þetta í mennta- og barnamálaráðuneytinu, þ.e. að snúa þessu þannig við. Við erum að vinna núna í skipulagsbreytingum í ráðuneytinu til að skerpa á þessu þannig að ég reikna með því að næsta haust eigum við að geta byrjað að feta okkur í átt að þessu. En gerist það allt í einu, að við náum öllum málaflokkunum í einu? Nei, vegna þess að við þurfum að byggja upp reiknigrunninn í hverju og einu úrræði, í hverju og einu menntakerfi. Þá held ég að við eigum að geta tekið punktstöðu hvenær sem er. Þegar það er verið að meta mál eins og þessi verður að setja krónur og aura á það vegna þess að öðruvísi er svo erfitt að koma til fjárlaganefndarmanns, eins og hv. þingmanns, og segja: Ég vil fá pening í þetta því að þetta skilar svo rosalega miklu. Svo er þetta bara eitthvað út í buskann, (Forseti hringir.) við vitum ekkert um það. Við viljum öll gera vel en við erum að vinna með opinbert fé og þess vegna held ég að þetta sé gríðarlega mikilvægt. Ég fagna áhuga hv. þingmanns á þessu (Forseti hringir.) og hvet hann bara til að lemja mig og aðra ráðherra áfram í þessu efni.