152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við verðum að horfa aðeins aftur í tímann í þessu máli. Í október 2018 breytti íslenska ríkið lögum um fiskeldi en tókst ekki betur en svo að breytingin brýtur í bága við átta greinar í reglum EES um mat á umhverfisáhrifum. Eftirlitsstofnun EES-samningsins, ESA, hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið brot. Það var verið að veita rekstrarleyfi án umhverfismats og án aðkomu almennings. Þrátt fyrir að þetta væri bráðabirgðarekstrarleyfi þá var þetta engu að síður rekstrarleyfi. Hér talar hæstv. ráðherra um að þetta verði að festa í sessi til að koma í veg fyrir óafturkræft tjón á verðmætum, þ.e. þegar um er að ræða fyrirtæki sem ekki hefur fengið gilt umhverfismat en er engu að síður í rekstri, þá fái það að halda áfram að vera í rekstri. Hvað finnst hæstv. umhverfisráðherra um að koma í veg fyrir óafturkræft tjón á þeim sameiginlegu verðmætum þjóðarinnar sem lífríki sjávar, vatna og lífríki í ám landsins ber með sér? Að við séum ekki að ganga svo mjög á náttúru landsins að við leyfum okkur hvað sem er með því að festa í sessi heimild til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða þrátt fyrir ófullnægjandi umhverfismat? Skipta verðmætin sem þarna felast í lífríkinu engu máli? Snýst þetta bara um hina fýsísku peninga?