152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:09]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Það sem ég er að reyna að benda á er að með þessum lögum er það gert mögulegt að gefa út bráðabirgðaheimildir fyrir starfsleyfi þó svo að umhverfismat hafi ekki verið fengið. Hættan er sú, þar sem bæði er hægt að gefa þetta út til eins árs og framlengja það til árs í viðbót, að óafturkræf eyðilegging á umhverfinu hafi átt sér stað á þeim tíma. Það er vandamálið sem ég sé. Það er hægt að brjóta á umhverfinu án þess að hægt sé að taka það til baka, kannski aðeins flóknara með fiskeldi en þetta er fordæmi sem við getum þá farið að nota fyrir aðra umhverfisþætti og við segjum bara: Já, en ráðherra getur gefið út bráðabirgðaheimild. Þetta er það sem ég er hræddur við. Það er von mín að hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoði þetta vel vegna þess að við verðum að láta umhverfið njóta vafans í þessu tilfelli.