152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:28]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins ég skil þetta, og þetta er nú fyrir mína tíð, þá kemur þetta til af því að það voru veittar tímabundnar undanþágur fyrir skertri starfsemi gagnvart tveimur rekstraraðilum í fiskeldi. Ástæðan fyrir því að það var gert, og það var ekki gert með neinni gleði í hjarta, var að menn töldu að tjónið sem yrði ef þetta væri ekki gert væri það mikið, það væri óafturkræft, og þess vegna fóru menn þessa leið. Og svo ég geri langa sögu stutta þá segir ESA: Heyrðu, þetta gengur ekki upp, þetta er ekki samkvæmt bókinni, þið getið ekki gert það svona. Þess vegna er þetta komið. En ef hv. þingmaður ætlar að spyrja þann sem hér stendur nákvæmlega út í þessi atvik þá þætti mér það mjög leiðinlegt því ég þekki þau ekki mjög vel. En það liggur bara fyrir að menn stóðust ekki þá umgjörð sem er til staðar og þess vegna gerði ESA athugasemdir og þess vegna kemur þetta frumvarp fram.

Það sem hv. þingmaður vísaði hér til og fleiri hv. þingmenn hafa vísað til er, eins og ég skil þetta, áhyggjur samtaka af því að hér sé verið að búa til leið til að sleppa því að fara eftir reglunum. En það er alls ekki uppleggið í þessu og er alveg sérstaklega tekið á því í greinargerðinni. En hv. þingmenn hafa góðan tíma til að fara nákvæmlega í þetta og heyra mismunandi sjónarmið í nefndinni. Þannig er í pottinn búið. Ég bara vona það og treysti því að hv. þingnefnd, ef málið kemst til þingnefndar, muni fara gaumgæfilega yfir þetta. En menn telja sig hafa komið til móts við þau sjónarmið sem koma fram frá þessum umsagnaraðilum sem margir hafa hér vitnað í í dag.