152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það sló mig aðeins út af laginu að fá ráðherra til að lesa hérna heilan kafla upp úr frumvarpinu. En gott og vel. Ráðherra las einmitt á svipuðum slóðum og mig langaði að spyrja hv. þingmann út í. Í 11. gr. frumvarpsins í f-lið er tíu nýjum málsliðum bætt við 21. gr. c laganna. Ef við skoðum greinargerð segir að í 10. málslið sé sérstaklega tilgreint að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Þetta er ekki sérstaklega tilgreint en það kannski leiðir af textanum. Þetta stendur ekki berum orðum en jú, það er hægt að lesa það út úr þessu. Þetta er stórmál vegna þess að réttlætingin fyrir því að útbúa bráðabirgðaheimildina á sínum tíma var sú að upp hefðu komið óvæntar aðstæður sem þyrfti að bregðast við með bráðabirgðalagasetningu. Því er ekki að skipta þegar við setjum varanlega heimild í lög. Þá er ekkert óvænt sem virkjar það, þá er það bara til. Ef kæra frestar ekki réttaráhrifum er hins vegar verið að hlaða upp í efnahagslegu réttlætingarnar sem voru notaðar hér árið 2018 til að réttlæta bráðabirgðaákvæðið. Ef kæra frestar ekki réttaráhrifum er hægt að halda áfram hinni dauðadæmdu framkvæmd og neyða hana í gegn á þeim forsendum að það sé búið að kosta svo miklu til. Þetta er mikið lykilatriði í því sem hv. þingmaður kallar svo listilega og réttilega að festa óskapnaðinn í lög.