152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og ég þakka honum kærlega fyrir að hafa svarað þeirri spurningu sem ég beindi að hæstv. ráðherra um það hvort kæra frestaði réttaráhrifum, af því að það er lykilatriði. En hæstv. ráðherra vissi það líklega ekki og í staðinn fyrir að lesa bara þingmálið sem hann er að færa fram þá fór hann í lestrarkeppni, ekki grunnskólanna heldur lestrarkeppni ráðherra. Ef kæra frestar ekki réttaráhrifum heldur sóðaskapurinn áfram. Ég segi sóðaskapur af því að það er einhver ástæða fyrir því að leyfi eru felld úr gildi eða leyfi ekki veitt. Það er verið að veita hérna bráðabirgðaheimild, annars vegar án þess að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram eða vegna þess að það er fellt úr gildi þar sem eitthvað er að varðandi umhverfisáhrifin, það er einhver galli. Þess vegna er verið að fella þetta úr gildi. Og þá er hægt að hlaupa til og sækja um bráðabirgðaheimild. Þau bæta við einhverri djókheimild fyrir almenning til að kæra sem gerir ekki neitt. Til hvers er þetta? Svo er í alvöru verið að halda því fram að það sé verið að leggja þetta fram til varnar því að það verði tjón. Það getur orðið varanlegt tjón á lífríkinu við þennan subbuskap.