152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega lykilatriði að matsskyldar framkvæmdir byggi alltaf á umhverfismati. Ég held að við í umhverfis- og samgöngunefnd þurfum aðeins að ræða hvað telst vera fullnægjandi umhverfismat af því að mér sýnist vera misjafn skilningur á því. Ég myndi segja að fullnægjandi umhverfismat sé umhverfismat sem er það vel úr garði gert að það muni standa af sér allar mögulegar kærur og ekki bara það heldur sé það búið að því. Í þessum tilvikum gætum við kannski verið að horfa á það að umhverfismat sé búið að bíða af sér kærufresti. Svo að við rifjum upp dæmið frá 2018 þá var vitað, þegar farið var af stað í framkvæmdina, að kæra væri yfirvofandi og það væri galli á því umhverfismati sem myndi væntanlega verða til þess að fella matið úr gildi. Þetta eru ekki fordæmi sem við viljum endilega festa varanlega í lög, síður en svo.

Varðandi hinn þáttinn í þessu, sem er aðkoma almennings, er rétt að rifja upp að það var ekki bara kært til ESA heldur líka til skrifstofu Árósasamningsins og þaðan bíðum við enn niðurstöðu. En við getum líka nefnt þá lítilsvirðingu sem þeim hefur verið sýnd sem gæta hagsmuna náttúrunnar gegn hinum sterku hagsmunum fjármálaaflanna með því hvernig þetta mál var unnið. Þetta frumvarp var sett í samráðsgátt um miðjan desember, rétt fyrir jól, með fresti í tvær vikur til að skila inn umsögnum. Þá bara hittist svo á að skrifstofa Landverndar var ekki föst á „refresh“- takkanum á samráðsgáttinni, vissi ekki af málinu og gat ekki skilað inn umsögn. Það var ekki verið að splæsa símtali á fólkið sem átti aðild að málinu (Forseti hringir.) sem þetta frumvarp spratt upp úr. Það er hægt að hringja í 200 viðskiptafélaga til að gefa þeim banka (Forseti hringir.) en það er ekki hægt að hringja í Landvernd til að bjóða þeim að verja náttúruna.