152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

loftslagsmál.

471. mál
[21:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði bara að koma hér upp stutt og ítreka nokkuð sem ég fjallaði um fyrr í kvöld þegar var verið að ræða mál frá öðrum ráðherra. Það er að við virðumst vera að eyða miklum tíma í að lagfæra lög og leiðrétta af því að texti og greinar og annað virkar ekki alveg nógu vel. Þá ítreka ég það sem ég lagði til fyrr í kvöld sem var að þegar við fáum frumvörp eins og þetta, sem oftast byrja á þann máta að einhverjar greinar orðist á einhvern hátt og við einhverjar greinar bætist eitthvað ákveðið, fáum við að sjá hvernig endaútgáfan af lögunum myndi líta út vegna þess að það er oft erfitt að átta sig á því hverju er verið að breyta.

Ég hjó líka eftir einu sem hæst ráðherra gæti kannski frætt okkur um. Ég tók eftir því að þarna er verið að bæta við um jöfnunarskyldu í flugi sem er mjög gott og greinilega verið að setja einn Brexit-lið þarna inn í leiðinni. Í 6. kafla greinargerðarinnar er talað um að ekki sé gert ráð fyrir að þetta frumvarp hafi áhrif á rekstur ríkissjóðs. Mig langar að forvitnast hvort ráðherra hefur einhverjar hugmyndir um það hvort talið er að þessi jöfnunarskylda muni hafa mikil áhrif á kostnað flugferða fyrir almenning. Ég veit ekki hvort ráðherra hefur svar við því eða vill koma því á framfæri seinna meir.