152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

loftslagsmál.

471. mál
[21:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held nefnilega að í dag sé að mörgu leyti ekki svo ýkja langt á milli mjög andstæðra sjónarmiða. Það blasir auðvitað við öllum og það er ekki flókinn útreikningur að átta sig á hvar árangur næst hraðast í hverju máli fyrir sig. Af því að plastið hefur verið rætt hérna þá er kostnaðurinn við aðgerðir allt annar á minna þróuðum svæðum en í fyrsta heims ríkjum þar sem áherslan er mest lögð á þann málaflokk. Það væri örugglega hægt að ná mjög miklum árangri fyrir þær fjárveitingar og þann kostnað sem fellur til hér á Vesturlöndum á minna þróuðu svæðunum. Eins og hv. þingmaður nefndi kemur þetta sennilega á endanum niður í það spursmál hvort ekki þurfi að setja meiri fjármuni til verksins. Ég er þeirrar skoðunar að það gerist fyrst og fremst með því að fjárfest sé í rannsóknum og þróun sem komi með lausnir sem á endanum geri endurnýjanlega orkugjafa kostnaðarlega hagkvæma, á ensku, með leyfi forseta, „cost efficient“, í samanburði við jarðefnaeldsneytið. Ég held að fókusinn undanfarin ár hafi verið of mikill á lausnir í nærumhverfi í staðinn fyrir að horfa á þetta hnattrænt og segja, í fyrsta lagi: Hvar náum við mestum árangri fyrir hvern dollara eða hverja krónu eða evru? Og síðan hitt: Hvað getum við sett mikið í rannsóknir og þróun í staðinn fyrir „ríaktífar“ aðgerðir hér á heimasvæðunum? (Forseti hringir.) Ég er ekki með viðbótarspurningu en hef lúmskan grun um að hv. þingmaður hafi meira til málanna að leggja.