152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

loftslagsmál.

471. mál
[21:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar við þessa umræðu aðeins að tala um loftslagsmál og umhverfismál á almennum nótum af því að ég veit að hæstv. ráðherra vill mjög áfram með málaflokkinn og brennur fyrir því að ná árangri á þeim sviðum þar sem stefnan hefur verið mörkuð á liðnum árum. Ég hef haft af því nokkrar áhyggjur að fókusinn, áherslan, sé skakkur, að við séum að leggja of mikla orku í þætti í þessum efnum, sem snúa að loftslagsmálum og umhverfismálum almennt, sem skila mjög hóflegum árangri vegna þess að við höfum staðið okkur býsna vel, sérstaklega er kemur að endurnýjanlegri orku og útblæstri hingað til.

Horfum á útblástur. Við, í andsvörum hvor við annan, ég og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, urðum tiltölulega sammála um að Ísland verður aldrei stór leikmaður á heimssviðinu með innlendar magntölur en hlutfallið „per capita“, eins og það er kallað á ensku, útblástur eða losunartölur eða sorptölur á hvern einstakling, er býsna hátt hér á landi í samanburði við til að mynda nágrannaþjóðir eða önnur þróuð ríki. Það kemur auðvitað að miklu leyti til af því hver landfræðileg lega landsins er. Við erum eyja og ég held að enginn sé raunverulega að tala fyrir því að við drögum til að mynda mikið úr flugi til og frá landinu, hvort sem það eru vöruflutningar, „cargo“, eða fólksflutningar. Við Íslendingar höfum bara býsna mikla þörf fyrir að komast til og frá landinu, hvort sem það er til að sækja tímabundið í betra veðurfar, nám, heimsækja ættingja eða hvað sem það kann að vera. Síðan er ein meginstoð íslenska hagkerfisins ferðaþjónustan, eins og við þekkjum öll. Þó að illa hafi gengið núna um tveggja ára skeið þá held ég að allir voni að sú staða breytist hratt aftur. Allt byggist þetta auðvitað á góðum samgöngum og flugi og sömuleiðis eru skipaflutningar miklir og úr öllu samhengi við íbúafjölda landsins bæði út frá því hversu miklir útflytjendur á vörum við erum og hversu háð við erum innflutningi héðan og þaðan, þótt ég sé eins og ýmsir aðrir fylgjandi því að við reynum að framleiða sem mest af því sem við þurfum hér heima.

En það kom mér aðeins á óvart í umræðunni almennt hversu djúpt hefur verið á því að vilji sé til að auka orkuframleiðslu hér heima á þann umhverfisvæna máta sem við þekkjum, og erum í algjörum fararbroddi í heiminum varðandi, er snýr að vatnsaflsvirkjunum, jarðhitavirkjunum, og síðan er annar þáttur heita vatnið. Ef við höldum okkur við vatnsaflið og jarðvarmavirkjanirnar þá eigum við gríðarlega mikið til af góðum ónýttum kostum sem eru lítt umdeildir í samhengi hlutanna. Það er auðvitað þannig að það er alveg sama hver virkjunarkosturinn er, það verður alltaf slagur um hvern og einn þeirra. En ég held að við ættum að fagna þeirri forréttindastöðu, leyfi ég mér að segja, sem við erum í sem þjóð hvað það varðar að hafa enn ónýtta gríðarlega marga góða kosti í vatnsafli og jarðvarma og með öllum þeim tækifærum sem gætu spunnist í orkugörðum og í tengslum við jarðvarmann sérstaklega. Við eigum ekkert að skammast okkar fyrir þetta, við eigum bara að segja: Við ætlum að bæta í og það mjög hressilega.

Þó að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hafi sett fram þá skoðun áðan að við ættum að leita leiða til þess að minnka umfangið, fækka ferðalögum, fækka bílunum á götunum og þar fram eftir götunum, þá er ég þeirrar skoðunar að sú nálgun sé líklega ekki raunhæf nema þá út frá einhverri stökkbreytingu í nýtingu hvað samgöngur varðar og þar fram eftir götunum, hvað sem framtíðin kann að bera í skauti sér í þeim efnum og sú framtíð þarf ekkert að vera mjög fjarlæg. En það gerist bara á grundvelli rannsókna og þróunar. Rétt eins og með innleiðingu rafbíla á undanförnum árum þá er þetta náttúrlega fyrst og fremst að gerast á forsendum þróunar erlendis hjá stórum fyrirtækjum, risafyrirtækjum sem við þekkjum, sem eru að þróa þessar lausnir áfram, svona smávægileg fínstilling og aðlaganir á kerfum hér heima hafa ekki neinar grundvallarbreytingar í för með sér í þessum efnum, að ég held.

Ég held því að við sem þjóð þurfum að næra það sem við erum best í sem er þessi orkuöflun sem við þekkjum svo vel á forsendum vatnsaflsvirkjana og jarðvarma, því að það er eitthvað sem síðasta skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sagði okkur á þeim rúmlega 4.000 síðum sem þar voru teknar saman. Ef það er einhver skylda sem sú skýrsla lagði okkur á herðar að mínu mati er það að auka raforkuframleiðslu á Íslandi með umhverfisvænum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að að því markmiði náðu þá eigum við að reyna að nýta eins mikið og við getum af þeirri orku til ýmiss konar framleiðslu hér heima, hvort sem það er í iðnaðarvörum eða landbúnaði eða hvað sem það kann að vera, á sama tíma og við verndum þá stöðu sem við höfum, að íslensk heimili og fyrirtæki njóti hagkvæms raforkuverðs, því að nægar eru samkeppnishamlanirnar sem íslensk fyrirtæki og heimili búa við vegna legu landsins og kostnaðar við flutninga og ferðalög. Ég held að þetta sé það sem blasir við að verði að gerast í þessum efnum.

Þá kemur að því sem er auðvitað búið að vera mikil þrautaganga lengi og það eru málefni rammaáætlunar. Þar eru þrír ráðherrar, gott ef ekki fjórir en alla vega þrír ráðherrar, sem á einhverjum tímapunkti voru ráðherrar allra þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn Íslands núna, fyrst Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, síðan Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra fyrir hönd Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og núna hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ef minnið svíkur mig ekki þá held ég að þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttir, hafi lagt fram rammaáætlunina án þess að hafa nokkurn tímann mælt fyrir henni. Ég sé að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nikkar úti í sal þannig að ég held að þetta sé rétt munað. Fjórir hæstv. umhverfisráðherrar hafa sem sagt lagt fram efnislega sama málið og við erum enn á hrakhólum með það. Málið kemst ekki áfram og það eru komnar fram einhverjar hugmyndir um að stækka biðflokkinn stórkostlega, alla vega mjög hlutfallslega, frá því sem tillagan gerir ráð fyrir og allt snýr þetta einhvern veginn að því að drepa málinu á dreif. Það verður að segjast að í ríkisstjórnarsamstarfi — að Sjálfstæðisflokkurinn, hæstv. umhverfisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, verandi ráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, leggi fram mál sem ráðherrar þeirra tveggja flokka sem Sjálfstæðisflokkurinn starfar með hafa efnislega eins lagt fram á fyrri stigum — það að einhverjar vöflur séu á ríkisstjórnarflokkunum að klára málið eins og það kemur fyrir er auðvitað ekki mjög uppörvandi staða að fylgjast með þegar þörf er fyrir fastara land undir fætur fyrir þá aðila sem sinna orkuframleiðslu og þörf sem efnahagslífið, fyrirtæki landsins og tækifærin sem æpa á okkur úr öllum áttum kalla á. Nú ætla ég ekki, vegna takmarkaðs tíma, að fara út í vandamál sem snýr að dreifingu raforku og því tjóni sem það raunverulega veldur sem er þeirrar gerðar að ég held að það gæti borgað allan þann framkvæmdarkostnað á stuttum tíma sem felst í því að koma dreifikerfinu til forsvaranlegs ástands.

En aftur að þeim skakka fókus sem ég held að hafi valdið okkur vandræðum undanfarið í tengslum við loftslagsmálin. Þekkt eru dæmin um samanburðinn á því hvort er verra, ef við horfum t.d. á losun gróðurhúsalofttegunda, að 500.000 tonna álver sé starfrækt á Íslandi eða í Kína. Meira að segja Ari Trausti Guðmundsson, hv. þingmaður Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili, sem er býsna vel lesinn í þessum fræðum, var sammála mér um það í umræðu í þingsal að það blasti auðvitað við að það væri betra fyrir umhverfið á heimsvísu eða loftslagið á heimsvísu að slíkur rekstur væri á Íslandi heldur en í Kína þar sem hann væri keyrður áfram með kolabruna. En svo því sé til haga haldið þá var hv. þáverandi þingmaður, Ari Trausti Guðmundsson, auðvitað ekki að taka þá afstöðu að það ætti raunverulega að byggja upp nýtt álver og ég var svo sem ekki að leggja það til heldur var þetta rökræðunnar vegna. En í þessu ljósi þá finnst mér, og það var það sem ég kom inn á í andsvari við hv. þm. Andrés Inga Jónsson áðan, þessi fókus alveg afskaplega bjagaðar og skakkur þegar málið er ekki reiknað í heild sinni, heildarlosun.

Aftur að bílnum þar sem við berum saman rafmagnsbílinn, Tesluna, sem ekur um á 100% endurnýjanlegu rafmagni á Íslandi samanborið við rafmagn sem framleitt er með kolum í Kína. Á meðan við náum ekki að skoða málið heildstætt og hnattrænt þá held ég að skotgrafirnar verði býsna djúpar og menn fastir fyrir í þeim hvorum megin sem má segja að menn standi gagnvart rökræðunni og afstöðu til þessara mála.

Þó að þetta sé auðvitað farið örlítið, ekki mikið, út fyrir efni þessa frumvarps, þá vil ég beina því til hæstv. ráðherra að leita leiða til að beina þessari umræðu meira inn á þessa hnattrænu umræðu á þeim forsendum svo að við komumst einhvern veginn áfram. Staðreyndin er sú að ég held að það verði mjög lítil þróun í þessum efnum — jú, vissulega verður þróun en hún verður miklu hægari en annars yrði ef það á fyrst og fremst að ná árangri með boðum og bönnum og refsingum í staðinn fyrir jákvæða hvata og áherslu á rannsóknir og þróun. Þannig mun árangur nást, árangur mun nást með því að endurnýjanlegir, umhverfisvænir orkugjafar verði hagkvæmari, peningalega hagkvæmari, heldur en jarðefnaeldsneytið. Á meðan fókusinn er ekki á akkúrat það held ég að slagurinn verði býsna harður og ekki alltaf málefnalegur, úr báðum áttum alveg örugglega.

En ef við horfum bara þröngt heim þá held ég að það sé ekki raunverulegur vilji til þess að draga verulega úr samgöngum, hvorki á vegum landsins né samgöngum til og frá landinu, hvort sem það eru fólksflutningar eða vöruflutningar. Ég held að það sé okkur lífsnauðsynlegt út frá legu landsins og öðrum þáttum að ekki verði vikið frá þeim lífsstandard Íslendinga sem hefur byggst upp um áratugina. Ég held að það sé ekki vilji til þess hjá meiri hluta landsmanna. Ég held að allir Íslendingar séu í grunninn náttúruverndarsinnar og vilji ganga vel um og vilji umhverfinu hið besta. En við verðum, eins og bara með fiskimiðin og aðra þætti, að finna eitthvert jafnvægi þar sem við getum lifað með náttúru í sátt og samlyndi, nýtt hana, hvort sem það er til orkuöflunar, matvælaframleiðslu, náttúruskoðunar, ferðaþjónustu eða hvað það kann að vera, en við verðum að finna þetta jafnvægi þar sem við nýtum það sem veldur ekki skaða umfram það sem er ásættanlegt en erum ekki föst í því að reyna árum og áratugum saman að taka einfalda ákvörðun sem hefur verið undirbyggð á forsendum sérfræðinga eins og það að klára 3. áfanga rammaáætlunar.