152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

loftslagsmál.

471. mál
[22:09]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við komumst aldrei hjá því að taka á sorpmálunum og hringrásarhagkerfinu án þess að flokka. Við erum bara langt á eftir öðrum þar. Því miður þarf maður bara að gera það sjálfur. Það verða allir að gera það. Ég nefndi ekki byggingar, en það er eitt sem við erum alls ekki með augun á, t.d. bara með nýbyggingu Alþingis. Þegar kemur að jákvæðum hvötum þá er það það sem við höfum verið að nýta og rannsóknir og þróun er lykilatriði í þessu. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson talaði um tekjurnar sem eru af þessu og það er mín skoðun að þær eigi að vera nýttar í rannsóknir og þróun af því að það er leiðin fram á við. Hv. þingmaður vísaði til þess að ég ætti að tala um þetta heildstætt og það er það sem við erum að gera. Vandinn er auðvitað að fá alla að borðinu og það er það sem menn eru að takast á um af því að það þarf að búa til hvata, raunverulega hvata, til þess að allar þjóðir heims fari af fullri alvöru í þetta og sömuleiðis þarf að hjálpa sumum, svo sannarlega. Sú þróunarsamvinna sem við erum í á að miðast að því og hefur miðast að því, og það var áhersla mín sem utanríkisráðherra, að það sé gert með loftslagsmálin í forgrunni. Þetta er vandamál okkar allra. Ef við rífumst endalaust og náum ekki saman, þjóðir heims, þá bara sökkvum við saman því að alveg sama hvað okkur finnst þá sýna mælingar að þetta getur ekki verið annað en af manna völdum, þessi mikla hlýnun sem er núna. En fyrsta rafflugvélin er komin til landsins. Gert er ráð fyrir að innan mjög fárra ára, árið 2026 hefur verið nefnt, verði komnar 19 sæta vélar sem fljúgi á alla flugvelli á Íslandi, 65–80% ódýrari í rekstri. Öll stóru flugfélögin og flugframleiðendur eru (Forseti hringir.) að miða við það að fara í endurnýjanlegt eldsneyti. Maersk er komið með fyrsta flutningaskipið sitt á rafeldsneyti. (Forseti hringir.) Ætlum við að vera með eða ekki?