152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

loftslagsmál.

471. mál
[22:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að hæstv. ráðherra sé að misskilja mig. Ég er einmitt að segja að við eigum að vera með. Við eigum að taka við þessum hlutum eins og rafvæðingu eða hvort það verður rafvetni eða hver sem lausnin verður í flugi. Ég hafði á síðasta kjörtímabili frumkvæði að því að umhverfis- og samgöngunefnd tæki upp sérstakt mál sem sneri að rafvæðingu flugs og núverandi hæstv. ráðherra, hv. þm. Jón Gunnarsson, flutti þingsályktunartillögu fyrir hönd nefndarinnar í framhaldinu þess efnis að við horfðum sérstaklega til rafvæðingar flugs. Ég er því mjög meðvitaður um þetta og þessir hlutir eru sem betur fer að gerast mjög hratt en þeir gerast á hraða sem við höfum kannski ekki mikla stjórn á. Það er punkturinn hjá mér. Við eigum að leyfa þessu, rétt eins og rafvæðingu bílaflotans og þar fram eftir götunum, að hafa sinn gang og hvetja til þess vissulega. En ég held að áherslurnar hjá okkur myndu nýtast betur ef við beindum þeim annað. Varðandi rafvæðingu bílaflotans þá er það t.d. miklu stærra atriði hversu marga rafbíla bílaumboðin fá afhenta frá framleiðendum heldur en kannski vilji okkar til að fjölga þeim á götunum. Fjöldinn ræðst bara af því hvað umboðin fá úthlutað. Svo auðvitað … (Gripið fram í.) Já, ég er meðvitaður um allar þessar tölur. En svo eru teknar svona furðuákvarðanir eins og við afgreiðslu fjárlaga í desember þar sem tengiltvinnbílunum, sem eru svona brú þarna á milli, er kippt út og það er ákvörðun sem ég held að gangi beinlínis gegn þeim markmiðum sem hæstv. ráðherra talar fyrir og eru skynsamleg. Ég leyfi mér því að nota það ofnotaða orðalag að stundum fer ekki saman hljóð og mynd í þessum efnum. (Forseti hringir.) Auðvitað eru allir að miða að því að gera sitt besta en minn punktur er sá að við eigum að reyna að setja orkuna og áherslurnar á það sem skilar mestum árangri.