152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:24]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Megintilgangur frumvarpsins er að leggja til bætt fyrirkomulag á stuðningskerfi vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun fyrir þá sem hita hús sín með raforku. Frumvarpið er samið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í samstarfi við Orkustofnun. Áform um lagasetninguna og drög að frumvarpi voru kynnt opinberlega í samráðsgátt stjórnvalda. Í samráðskafla greinargerðarinnar er greint frá umsögnum og viðbrögðum við þeim.

Núverandi stuðningskerfi vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar við húshitun hefur reynst flókið og óskilvirkt í framkvæmd. Notendur sem ekki eiga kost á að nýta jarðvarma til húshitunar hita nær allir hús sín með raforku. Húshitun með raforku er talsvert dýrari en húshitun frá jarðvarmaveitu. Til að jafna búsetuskilyrði greiðir ríkið niður dreifi- og flutningskostnað raforku til hitunar heimila. Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar eru umtalsverðar þar sem ríkið niðurgreiðir að fullu dreifi- og flutningskostnað raforku til húshitunar hjá notendum, þó aldrei meira en skilgreindur hámarksfjöldi kílóvattsstunda hvers notanda. Lækkun á húshitunarkostnaði er því sameiginlegt hagsmunamál ríkis og notenda sem njóta niðurgreiðslna. Þeir notendur sem njóta niðurgreiddrar rafhitunar og vilja taka upp umhverfisvæna orkuöflun eiga þess kost að sækja um styrk til Orkustofnunar sem felur í sér fyrirframgreidda niðurgreiðslu sem tekur mið af meðalnotkun viðkomandi húseignar og þeim sparnaði sem slík framkvæmd skilar eða er áætlað að skili. Helst ber hér að nefna varmadælur sem eru umhverfisvæn lausn sem bætir orkunýtingu og geta lækkað bæði rafhitunarkostnað notenda og niðurgreiðslukostnað ríkisins umtalsvert. Undir styrkhæfan búnað geta einnig fallið sólarrafhlöður, vindmyllur og hitastýringartæki svo dæmi séu tekin.

Hagur bæði notenda og ríkisins af umhverfisvænni orkuöflun er óumdeildur. Fyrir notendur leiðir slíkur búnaður af sér minni raforkunotkun með tilheyrandi lækkun á kostnaði. Þá lækkar mótframlag ríkisins vegna minni raforkunotkunar. Á sama tíma skilar slíkur búnaður gjarnan aukinni orku út í kerfið en ljóst er að losa þarf raforku til nauðsynlegra orkuskipta á næstu árum.

Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á fyrirkomulagi styrkveitinga vegna umhverfisvænnar orkuöflunar. Núgildandi fyrirkomulag felur í sér að notandi sem vill taka upp umhverfisvæna orkuöflun og/eða ráðast í aðgerðir sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun getur sótt um styrk til Orkustofnunar sem jafngildir átta ára áætluðum niðurgreiðslum sem lækka í réttu hlutfalli við orkusparnað tengdan umhverfisvænni orkuöflun og/eða aðgerðum sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun. Þannig byggist styrkfjárhæðin á áætlunum notandans á eigin orkusparnaði en um leið lækkar niðurgreiðslustuðull viðkomandi notanda.

Með frumvarpinu er lagt til að miða fjárhæð styrksins við helming kostnaðar við kaup á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun. Þannig mun styrkurinn miðast við kostnað af kaupum á tækjabúnaði í stað útreikninga notenda sjálfra á áætluðum sparnaði. Með breytingunum mun niðurgreiðslustuðullinn ekki lækka og áhætta notenda verður þannig lágmörkuð. Er þetta talið einfaldara og sanngjarnara fyrirkomulag. Reynslan hefur sýnt að hátt flækjustig núverandi kerfis og eigin áhætta styrkþega hefur fælingarmátt gagnvart notendum sem þurfa að áætla orkusparnað og afsala sér á þeim grunni hlutfalli af niðurgreiðslurétti gegn eingreiðslu. Einfaldara og sanngjarnara þykir að réttur til eingreiðslu miðist alfarið við hlutfall af kostnaði sem notandi leggur út vegna kaupa á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar. Einfaldara og sanngjarnara kerfi er talið stuðla að aukinni notkun varmadælna og öðrum tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun með tilheyrandi ávinningi fyrir neytendur, ríki, raforkukerfið og orkuskipti.

Ætla má að rafhitun í landinu sé á bilinu 600–650 gígavattsstundir og af því eru um 320 gígavattsstundir niðurgreiddar, þar af 225 gígavattsstundir vegna beinnar rafhitunar. Með varmadælum og öðrum orkusparandi búnaði væri að mati Orkustofnunar hægt að losa um allt að 110 gígavattsstundir í aðra notkun, en það samsvarar raforkunotkun 50.000 rafbíla.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og ég legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. atvinnuveganefndar.