152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:31]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og hún er mjög mikilvæg því að það er mikilvægt að við þurfum ekki að koma með þetta aftur og aftur vegna þess að það vanti eitthvað inn í skilgreininguna. Skilgreiningin er svona, með leyfi forseta:

„Með búnaði til umhverfisvænnar orkuöflunar er í lögum þessum átt við allan þann tækjabúnað sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun, þ.m.t. nauðsynlegan fylgibúnað fyrir virkni hans, að undanskildum breytingum á hitakerfum húsnæðis innan dyra.“

Ég vona bara að hv. atvinnuveganefnd fari mjög vel yfir þessa skilgreiningu sem hljómar fyrir mér þannig að hún ætti að ná því sem hv. þingmaður var að vísa til, sem snertir það að við vitum ekkert hvaða tækninýjung kemur næst. Ég hef saknað þess svolítið, verð ég að viðurkenna, þegar þessi umræða er uppi að þá höfum við talað almennt um vatnsafl, jarðvarma og vindorku, en við tölum aldrei um sólarorku. Það er hægt að nota hana hér og sú tækni verður örugglega betri og það er ýmislegt annað. Í þessu tilfelli hafa menn talað mest um varmadælur en það er til margt fleira. Ég þekki ekki þessa tækni sem hv. þingmaður vísaði til en ég held að það skipti mjög miklu máli að hún sé þarna inni og hvaðeina annað sem menn koma með sem uppfyllir þessi skilyrði. Þetta er fyrir heimili, gert er ráð fyrir því, og miðast við það. Það er stórt mál sem skilar miklu.